Heiðraði norrænan arf Bandaríkjanna

Barack Obama, forseti Bandaríkjanna.
Barack Obama, forseti Bandaríkjanna. AFP

Barack Obama Bandaríkjaforseti sendi frá sér tilkynningu í dag þar sem hann lýsti daginn í dag, 9. október 2012, Dag Leifs Eiríkssonar en um er að ræða árlegan viðburð sem átt hefur sér stað frá því að báðar deildir Bandaríkjaþings samþykktu árið 1964 að heimila forseta Bandaríkjanna að heiðra með þessum hætti 9. október ár hvert landkönnuðinn Leif Eiríksson og norræn-ameríska arfleið Bandaríkjanna.

Dagurinn í dag er ekki tengdur neinni tímasetningu í lífi Leifs heldur er hún miðuð við að 9. október 1825 kom skipið Restauration til hafnar í New York og flutti með sér fyrsta stóra innflytjendahópinn til Bandaríkjanna frá Noregi. „Því lýsi ég, Barack Obama, forseti Bandaríkja Norður-Ameríku, hér með 9. október 2012 Dag Leifs Eiríkssonar. Ég bið alla Bandaríkjamenn að halda þennan dag hátíðlegan með viðeigandi viðhöfn, starfsemi og dagskrám til að heiðra okkar ríku norræn-amerísku arfleifð,“ segir í yfirlýsingu forsetans í tilefni dagsins og ennfremur:

„Frægir ævintýramenn eins og Leifur Eiríksson örva enn takmarkalausa löngun okkar til að sækja að nýjum endimörkum og varpa ljósi á hið óþekkta. Um þessar mundir hafa Bandaríkin forystu um óvenjulega nýsköpun á öllum sviðum vísinda og tækni, hefja nútímalega leiðangra til að rannsaka og varðveita norður- og suðurheimskautið, og senda jafnvel könnunarvélmenni til Mars. Megi innblástur frá hinni harðgerðu staðfestu sem hvatti forfeður okkar áfram einnig hvetja okkur á meðan við stefnum að sífellt bjartari framtíð, og megi sami könnunarkraftur stýra framförum okkar á komandi árum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert