Rauf hljóðmúrinn fyrstur manna

Austurríkismaðurinn Felix Baumgartner, sem í dag stökk með fallhlíf úr 39 kílómetra hæð, varð fyrsti maðurinn til að rjúfa hljóðmúrinn. Baumgartner fór upp í þessa hæð í sérútbúnum loftbelg, þar sem hann hafðist við í hylki og tók ferðin upp um tvær klukkustundir. 

Hann féll á 1342 kílómetra hraða þar til fallhlíf hans opnaðist, en það er 1,24 faldur hljóðhraði.

„Mér líður eins og ég hafi losnað við 20 tonna farg af öxlunum. Ég bjó mig undir þetta stökk í sjö ár,“ sagði Baumgartner við austurrísku sjónvarpsstöðina ServusTV eftir stökkið, en hann lenti skömmu eftir klukkan 18 í kvöld.

Þetta var rétt ákvörðun

Hann lenti í vandræðum með höfuðhjálm sinn og hélt að hann þyrfti að hætta við stökkið á síðustu mínútu. „Jafnvel á degi sem þessum, þegar allt byrjar svo vel, þá koma upp erfiðleikar. Og þá heldur maður að það þurfi að hætta við allt. En ég ákvað að stökkva. Það var rétt ákvörðun.“

Skömmu áður en Baumgartner stökk sagði hann í talstöð: „Stundum þarftu að fara virkilega hátt upp til þess að átta þig á því hversu smár þú ert.“

Upphaflega stóð til að hann færi ekki ofar en í tæplega 37 kílómetra hæð, en loftbelgurinn reis nokkru hærra en áætlað hafði verið. 

„Austurríki er stolt af þér“

Meðal þeirra fyrstu til að óska ofurhuganum til hamingju með afrekið var Heinz Fischer, forseti Austurríkis. „Mínar hlýjustu heillaóskir til Felix Baumgartner vegna þessa mikla afreks, sem honum tókst með hugrekki og þrautseigju. Austurríki er stolt af þér,“ skrifaði Fischer á Facebook-síðu sína.

Stökkið var ekki án áhættu, margt hefði auðveldlega getað farið úrskeiðis. Baumgartner hefði getað snúist í loftinu og þannig misst meðvitund. Blóð hans hefði getað farið að sjóða ef minnsta rifa hefði verið á útbúnaði hans, sem var algerlega loftþéttur. Þá hefði hann getað frosið í hel hefði útbúnaður hans ekki virkað sem skyldi, en um 68°C frost er í svona mikilli hæð.

Fékk góðan stuðning

Baumgartner hafði í kringum sig fjölmennt lið stuðnings- og aðstoðarmanna. Þeirra á meðal er Joe Kittinger, fyrrverandi yfirmaður í bandaríska flughernum, sem stökk úr rúmlega 31 kílómetra hæð árið 1960.

„Megi verndarenglarnir vaka yfir þér,“ sagði Kittinger við Baumgartner í þann mund sem hann stökk út í loftið.

Frétt mbl.is: Baumgartner lentur heill á húfi

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert