Hvalveiðar skattgreiðendum dýrar

Japanska hvalveiði- og rannsóknarskipið Nisshin Maru siglir úr höfn á …
Japanska hvalveiði- og rannsóknarskipið Nisshin Maru siglir úr höfn á eyjunni Innoshima. AFP

Hvalveiðiáætlun Japana kostar þarlenda skattgreiðendur sem nemur 10 milljónum bandaríkjadala á ári, að sögn þrýstihóps dýraverndunarsinna sem krefst þess að endi verði bundinn á „deyjandi iðnað“.

Sjóðurinn International Fund for Animal Welfare (IFAW) segir að þær tekjur sem Japanir hafi upp úr sölu á hvalkjöti séu hverfandi í samanburðinn við kostnaðinn af því að reka og viðhalda flotanum.

„Hvalveiðiiðnaðurinn hefur verið rekinn með tapi í yfir 20 ár,“ segir Patrick Ramage talsmaður IFAW. „Það eru skattgreiðslur sem hið góða fólk í Japan innir af hendi sem heldur hvalveiðiiðnaðinum á floti.“

IFAW sendi í dag frá sér skýrslu í Tókýó þar sem segir að neysla á hvalkjöti hafi náð hámarki á 7. áratugnum en stöðugt dregist saman síðan og að Japanir eigi um 5.000 tonn af hvalkjöti á lager.

Þegar Afp reyndi að fá viðbrögð úr japanska sjávarútvegsráðuneytinu fengust ekki önnur en yfirlýsing um að japanskar hvalveiðar séu gerðar í vísindaskyni og séu ekki iðnaður. Japanski hvalveiðiflotinn er nú á sínum árlegu veiðum sem hefjast í desember í Suðurhafi þar sem takmarkið er að veiða um 1000 skepnur.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert