Stjórnmálamenn eiga ekki að ljúga

Chris Huhne, fyrrverandi orkumálaráðherra Bretlands, var í gær dæmdur í …
Chris Huhne, fyrrverandi orkumálaráðherra Bretlands, var í gær dæmdur í 8 mánaða fangelsi. Hann situr núna á bak við lás og slá. JUSTIN TALLIS

Það er gömul sannindi og ný að fólk á að segja satt. Þegar stjórnmálamaður tekur upp á því að ljúga ítrekað er hann að taka mikla áhættu. Þetta þekkir Chris Huhne, fyrrverandi orkumálaráðherra Bretlands, sem nú situr á bak við lás og slá; allt út af lítilli hraðasekt.

Í dag eru nákvæmlega 10 ár síðan hraðamyndavél tók mynd af bíl í eigu Huhne. Hann var á þeim tíma kominn með níu punkta í ökuferilsskrá og óttaðist að ef hann fengi þrjá punkta í viðbót myndi hann missa bílprófið. Hann taldi að það kynni að hafa slæm áhrif á stjórnmálaferil sinn og fór því fram á það við konu sína að hún segði lögreglunni að hún en ekki hann hefði verið undir stýri.

Huhne var á þessum tíma þingmaður á Evrópuþinginu, en hann var kjörinn á breska þingið árið 2005 fyrir Frjálslynda flokkinn. Hann þótti efnilegur stjórnmálamaður og bauð sig fram til formennsku í flokknum árið 2006 og aftur árið 2007 þegar Nick Clegg var kjörinn formaður.

Þegar Íhaldsflokkurinn og Frjálslyndi flokkurinn mynduðu samsteypustjórn árið 2010 varð Huhne orkumálaráðherra og varð einnig ábyrgur fyrir loftslagsmálum.

Ráðherra í framhjáhaldi

Í júní 2010 tóku ljósmyndarar myndir af Huhne þar sem hann var á ferð að næturlagi í kjördæmi sínu í fylgd með annarri konu. Í framhaldinu viðurkenndi Huhne að hann ætti í ástarsambandi við Carina Trimingham. Gengið var frá skilnaði hans og Vicky Pryce í janúar 2011.

Vicky Pryce og Chris Huhne höfðu verið gift í 26 ár. Hún er hagfræðingur að mennt og nýtur talsverðar virðingar fyrir þekkingu á efnahagsmálum.

Pryce var afar ósátt við framhjáhald eiginmanns síns og var ákveðin í því að ná sér niður á honum. Í maí 2011 birti breska blaðið Mail on Sunday frétt um að Huhne hefði árið 2003 látið eiginkonu sína taka á sig hraðasekt og hann hefði þannig logið að lögreglunni og þar með hindrað framgang réttvísinnar.

Huhne neitaði strax að nokkuð væri til í þessum fréttum. Lögreglan hóf hins vegar rannsókn á málinu. Eftir að lögreglan gaf út ákæru á hendur Huhne og Pryce í febrúar 2012 ákvað hann að segja af sér ráðherraembætti. Hann hélt áfram að neita sök og sagðist sannfærður um að dómurinn myndi sýkna sig.

Málið hélt hins vegar áfram að vinda upp á sig og í síðasta mánuði ákvað Huhne að segja af sér þingmennsku. Hann breytti þá jafnframt framburði sínum og sagðist ætla að játa á sig sök. Pryce neitaði hins vegar ákæruatriðunum. Þau voru hins vegar bæði dæmd í gær í átta mánaða fangelsi.

Í réttarhöldunum voru ýmis persónuleg gögn birt. M.a. upptökur af samtölum Huhne og Pryce þar sem hann ásakar hana um að leka upplýsingum í blöðin. Jafnframt voru birt SMS-skeyti frá Peter Huhne, syni þeirra hjóna, þar sem hann sakar föður sinn um að ljúga. Chris Huhne svaraði Peter og sagist ekki vilja bera ábyrgð á því að móðir hans þyrfti að sitja í þrjá mánuði í fangelsi.

Tvíkynhneigð hjákona í málarekstri

Hjákonan, Carina Trimingham, hefur líka fengið sinn skerf af fjölmiðlaathyglinni. Fjölmiðlar upplýstu m.a. að hún væri tvíkynhneigð. Henni ofbauð hvernig Daily Mail skrifaði um hana og fór í mál við blaðið. Sá málarekstur skilaði engu.

Fyrir réttinum var upplýst að Trimingham hefði selt upplýsingar til fjölmiðla um kynferðismál Nick Clegg, en Clegg og Huhne voru á sínum tíma keppinautar um leiðtogaembættið í Frjálslynda flokknum. Hún hélt því fram í dómssal að það væri munur á því að veita upplýsingar um opinbera persónu eins og Clegg eða um óþekkta manneskju. Dómari tók ekki mark á þessum rökum og vísaði málinu frá.

Enginn hafinn yfir lög

Stjórnmálamenn og fjölmiðlar í Bretlandi hafa mikið fjallað um örlög Huhne, sem nú situr á bak við lás og slá. Margir hafa bent á að Huhne hafi verið ágætur stjórnmálamaður og staðið sig vel sem ráðherra, en menn benda líka á að þetta mál sýni að enginn sé hafinn yfir lög, ekki einu sinni ráðherra.

Þess má svo að lokum geta að rannsóknir benda til þess að um 300 þúsund ökumenn í Bretlandi hafi tekið á sig hraðasekt sem einhver annar bar ábyrgð á. Þetta vandamál er því talsvert útbreitt. Talið er að dómari í máli Huhne og Pryce hafi með dómnum viljað senda skilaboð út í samfélagið um að þessi brot séu ekki álitin léttvæg.

Þessi mynd var tekin af Vicky Pryce eftir að dómur …
Þessi mynd var tekin af Vicky Pryce eftir að dómur féll í gær, en hún og fyrrverandi eigninmaður hennar voru send strax í fangelsi. LEON NEAL
Carina Trimingham er núverandi sambýliskona Chris Huhne.
Carina Trimingham er núverandi sambýliskona Chris Huhne. JUSTIN TALLIS
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert