PIP-réttarhöldin hefjast á morgun

Á morgun hefjast ein umfangsmestu réttarhöld í sögu Frakklands yfir fimm framkvæmdastjórum fyrirtækisins PIP sem seldu konum um allan heim falsaða brjóstapúða.

Yfir 5.000 konur taka þátt í málsókninni. Meðal hinna ákærðu er stofnandi PIP-fyrirtækisins, hinn 73 ára Jean-Claude Mas. Hann er ákærður fyrir svik með því að hafa sett iðnaðarsílikon í brjóstapúða fyrirtækisins.

Talið er að um 300 þúsund konur í 65 löndum hafi fengið púðana. PIP-púðarnir eru tvisvar sinnum líklegri en aðrir til að rofna.

Árið 2011 komst málið í hámæli um allan heim og mikil hræðsla greip um sig meðal kvenna sem fengið höfðu púðana ígrædda.

Heilbrigðisyfirvöld telja að púðarnir séu ekki eitraðir og auki ekki hættuna á krabbameini. Mörg lönd gripu þó til þess ráðs að bjóða konum að láta fjarlægja púðana á kostnað ríkisins. Nú er í gangi umfangsmikil 10 ára rannsókn á langtímaáhrifum púðanna.

Um 4.000 franskar konur hafa tilkynnt leka PIP-púða í brjóstum sínum og um 15 þúsund hafa látið fjarlægja þá.

Mörg hundruð fórnarlömb munu mæta sem vitni í réttarhöldunum og eru verjendur þeirra um 300 talsins.

Réttarhöldin fara fram í Marseille, skammt frá höfuðstöðvum PIP-fyrirtækisins. Þau verða haldin í ráðhúsi borgarinnar þar sem um 700 manns geta fengið sæti og um 800 til viðbótar geta fylgst með réttarhöldunum úr nærliggjandi sölum.

Hinir ákærðu gætu átt yfir höfði sér allt að fimm ára fangelsisdóm verði þeir fundir sekir.

Talið er að réttarhöldin standi til 17. maí.

„Þó að ekki hafi allar konurnar orðið fyrir líkamlegum eða andlegum skaða vegna púðanna hafa þær allar hlotið ör vegna málsins til frambúðar,“ segir Joelle Manighetti, 56 ára, sem lét græða í sig PIP-púða eftir að hafa misst bæði brjóstin vegna krabbameins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert