Hróp gerð að PIP-stofnanda

 Jean-Claude Mas, stofnandi PIP-fyrirtækisins, fékk óblíðar móttökur hjá gestum í réttarsalnum í Marseille í Frakklandi í morgun við upphaf réttarhalda yfir fimm framkvæmdastjórum PIP sem eru ákærðir fyrir að hafa selt konum um allan heim falsaða brjóstapúða.

Yfir fimm þúsund konur taka þátt í hópmálsókn gegn fimmmenningunum en talið er að yfir 300 þúsund konur í 65 löndum hafi fengið púða frá PIP. Eru málaferlin ein þau umfangsmestu í franskri réttarsögu. Flytja þurfti réttarhöldin í annan sal vegna þess mikla fjölda sem fylgist með þeim.

Heilbrigðisyfirvöld telja að púðarnir séu ekki eitraðir og auki ekki hættuna á krabbameini. Mörg lönd gripu þó til þess ráðs að bjóða konum að láta fjarlægja púðana á kostnað ríkisins. Nú er í gangi umfangsmikil 10 ára rannsókn á langtímaáhrifum púðanna en þeir eru mun líklegri til að springa en aðrir brjóstapúðar.

Alexandra Blachere, lögfræðingur kvennanna, sagði við upphaf réttarhaldanna í dag að þær vonuðust til þess að framkvæmdastjórarnir fengju makleg málagjöld þó svo ólíklegt sé að dómurinn yfir þeim verði jafn þungur eins og þeir verðskuldi.

Mas, er fyrrverandi farandsölumaður sem kom inn í lyfjageirann með sölu á lyfjum. Hann stofnaði PIP árið 1991 þegar mikill vöxtur var í brjóstapúðaígræðslum. Fyrirtækið varð það þriðja stærsta í heimi en það tók að fjara undan rekstrinum þegar lýtalæknar fóru að kvarta undan því hversu oft PIP púðarnir lækju. 

Síðar kom í ljós að Mas sparaði sér milljónir evra með því að nota iðnaðarsílikon í um 75% púðanna. Í kjölfarið voru PIP púðarnir bannaðir og fyrirtækið fór í þrot. Um 80% af framleiðslu PIP var flutt út, þar af helmingur til rómönsku Ameríku. En um þriðjungur til vesturhluta Evrópu, þar á meðal Íslands, um 10% til Austur-Evrópu og afgangurinn til Miðausturlanda og Asíu.

Auk Mas eru þeir Claude Couty, gæðastjóri PIP, Hannelore Font, Loic Gossart og Thierry Brinon ákærðir.

Einhverjir þeirra, þar á meðal Mas, eru ákærðir í öðru máli þar sem þeir eru sakaður um manndráp og fjársvik. Um er að ræða grunsamlegt andlát konu árið 2010 úr krabbameini en hún hafði fengið PIP púða ígræðslu.

Jean-Claude Mas sést hér í pásu við réttarsalinn í Marseille …
Jean-Claude Mas sést hér í pásu við réttarsalinn í Marseille í dag AFP
Fjölmenni er við réttarhöldin yfir yfirmönnum PIP í Marseille
Fjölmenni er við réttarhöldin yfir yfirmönnum PIP í Marseille AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert