Frambjóðandinn klæmdist við konu - aftur

Anthony Weiner sem sækist eftir því að verða borgarstjóri í New York hefur játað að hafa sent djörf skilaboð til konu, tveimur árum eftir að hann þurfti að segja af sér þingmennsku í fulltrúadeildinni vegna sambærilegs hneykslismáls.

Í frétt BBC um málið segir að ónafngreind kona hafi sagt frá því í viðtali við vefsíðuna The Dirty að hún hafi átt í sambandi við hinn 48 ára borgarstjóraframbjóðanda á netinu.

 Weiner sem þótti líklegt borgarstjóraefni demókrata segist vera „mjög leiður“ yfir málinu. Árið 2011 sagði hann að einhver hefði brotist inn á Twitter-reikninginn hans og sent þaðan klúrar myndir (af honum sjálfum) til ungra kvenna. Hann viðurkenndi síðar að hafa sjálfur borið ábyrgð á sendingunum.

Weiner baðst afsökunar á blaðamannafundi í New York í gær með eiginkonuna Huma Abedin sér við hlið.

Hann sagðist þó ekki ætla að hætta við framboðið en í nóvember kemur í ljós hvert verður borgarstjóraefni demókrata í New York. Þrír aðrir frambjóðendur kröfðust þess í gær að hann hætti við framboðið.

„Þessi hegðun er að baki. Ég hef beðið konuna mína, Humu, afsökunar og ég er þakklátur fyrir að hún hefur unnið í þessu með mér og að hún hefur fyrirgefið mér,“ sagði Weiner við fréttamenn í gær. Hann sagði að atvikið sem um ræðir hefði átt sér stað síðasta sumar. Hann sagði þó fréttir af málinu ónákvæmar en vildi ekki fara út í smáatriði.

„Ég elska hann, ég hef fyrirgefið honum, ég trúi á hann,“ sagði eiginkonan.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert