Virkaði eins og segull á karlmenn

Mia Farrow starfar meðal annars fyrir Unicef
Mia Farrow starfar meðal annars fyrir Unicef AFP

Ronan Farrow hefur aldrei þótt líkjast föður sínum, kvikmyndaleikstjóranum Woody Allen. Móðir Ronans, leikkonan Mia Farrow, segir í viðtali við Vanity Fair að á þessu geti verið eðlileg skýring: Ronan Farrow sé „hugsanlega“ sonur kvennagullsins Franks Sinatra.

Mia Farrow giftist Sinatra 1966 og þau skildu tveimur árum síðar. Hún segir í viðtalinu að þau hafi þó í raun aldrei slitið sambandinu alveg. Seinna var hún í tólf ára sambandi við Woody Allen en því lauk 1992 eftir að hann hóf ástarsamband við ættleidda dóttur hennar.

Ronan er 25 ára blaðamaður og lögfræðingur og hefur barist fyrir mannréttindum. Hann var einnig ráðgjafi Hillary Clinton þegar hún var utanríkisráðherra.

Lífshlaup Miu Farrow er rakið á vef Telegraph í dag þar sem fram kemur að leikkonan hafi alltaf virkað eins og segull á karlmenn.

Farrow, sem er þrettán barna móðir (hún átti 15 börn en tvö þeirra eru látin), býr á sveitabæ í afskekktum hluta Connecticut ríkis. Börnin eru vaxin úr grasi en hún býr þarna ásamt  tveimur kúm, fimm köttum, kanínum, hömstrum, fuglum, eðlum og skrautfiskum.

Í greininni kemur fram að Farrow, sem er 68 ára að aldri, eigi í góðu sambandi við nágranna sína og lifi einföldu lífi. Hún eyði miklum tíma með barnabörnunum, sem eru alls níu talsins, auk þess sem ljósmyndun og vinnsla þeirra sé mikið áhugamál og fari stór hluti af tíma hennar í að vinna í myrkraherberginu.

Það er fátt sem minnir á dýrðardaga hennar hér áður fyrr er stjarna henna skein ekkert síður en Ritu Hayworths og Övu Gardner.

En Farrow er komin aftur í sviðsljósið eftir að Vanity Fair birti viðtal við hana þar sem hún segir að Ronan sé jafnvel sonur hins bláeygða Sinatra sem fæddist er söngvarinn var 72 ára að aldri.

Fædd með silfurskeið í munni sem féll fljótt á

Farrow er fædd í Hollywood en faðir hennar var ástralski leikstjórinn John Farrow og móðir hennar írska leikkonan Maureen O’Sullivan. Var löngum sagt að Mia hafi fæðst með silfurskeið í munni en fallið hafi á silfurskeiðina þegar hún var ung að árum vegna þeirra erfiðleika sem hún þurfti að ganga í gegnum.

Þegar Mia Farrow var níu ára gömul fékk hún lömunarveiki og var í einangrun í þrjár vikur á sjúkrahúsi í Los Angeles. Hefur hún lýst því að þetta tímabil marki enda barnæsku hennar. 

Þegar hún var þrettán ára gömul lést bróðir hennar Michael í flugslysi. 17 ára missti hún föður sinn úr hjartaáfalli en síðasta símtalið sem hann hringdi var til hennar, en hún svaraði ekki.

Hún var ung komin á svið leikhúsanna og þar kynntist hún spænska listamanninum Salvador Dali sem varð náinn vinur hennar. Eins var Liza Minelli góð vinkona hennar og það var Mia sem fékk hana til þess að klippa hár sitt stutt líkt og hún hafði sjálf gert en þær eru báðar þekktar fyrir að skarta drengjakoll á sjöunda áratugnum.

Líkt og hún sé af annarri plánetu

En það var hlutverk Allison MacKenzie sem kom Farrow á kortið árið 1964. Michael Thornton, rithöfundur, segir að hann hafi kynnst Farrow á þessum tíma. Hann lýsir henni sem afar gáfaðri, heillandi og vanmetinni. Hún hafi eiginlega verið eins og af annarri plánetu og þrátt fyrir ungan aldur hafi hún verið mjög andlega þenkjandi.

Farrow var aðeins 19 ára þegar hún kynntist Sinatra en hann var 48 ára gamall. Þau hittust fyrst í sjónvarpsþætti og lét Sinatra fljúga með Farrow á einkaþotu sinni til Palm Springs helgina eftir. Ári síðar gengu þau í hjónaband. En hjónabandið entist ekki og var jafnvel gert grín að sambandi þeirra.

Vissi að hann myndi enda með stráklingi sagði fyrrverandi eiginkona

Thorton segist minnast þess að Ava Gardner, fyrrverandi eiginkona Sinatra, hafi tekið bakföll af hlátri og sagt að hún hafi alltaf vitað að hann myndi enda með strákling. Þar vísaði hún til stráklegs útlits Miu á þessum tíma með sinn fræga drengjakoll. 

Á sama tíma og ferill Farrow sem leikkonu tók stórt stökk upp á við þegar hún lét í kvikmynd Romans Polanskis, Rosemary’s Baby, þá markaði það hlutverk einnig endalok hjónabands hennar og Sintara sem mætti með skilnaðarpappírana þar sem hún var við tökur á kvikmyndinni.

Farrow lifði hratt á þessum tíma, ferðaðist til Indlands með Bítlunum þar sem þau stunduðu innhverfa íhugun. Hún lék í nokkrum stórmyndum og árið 1971 gekk hún í hjónaband með píanóleikaranum André Previn. Þau ættleiddu þrjú börn frá Víetnam á tímabilinu 1973 - 1976, Lark Song, Summer Daisy Song og Soon-Yi og eignuðust þrjú börn saman, tvíburana Matthew og Sascha og Fletcher. Þau skildu árið 1979 og ári síðar hófst ástarsamband hennar og Woody Allen. Þau ættleiddu tvö börn saman Moses og Dylan. Ronan fæddist síðan árið 1987.

Sambandið fékk harkalegan endi

En sambandið við Allen fékk harkalegan endi þegar í ljós kom árið 1992 að hann átti í ástarsambandi við dóttur hennar, Soon-Yi.  Í kjölfarið fylgdi tólf mánaða tímabil í lífi Farrow sem einkenndist af svartnætti. Geðraskanir og sjálfsvígstilraunir eru það sem aðdáendur hennar og fjölskylda minnast frá þessum tíma. Leitaði hún til dómstóla þar sem hún sakaði Allen um að hafa beitt dóttur þeirra Dylan kynferðislegu ofbeldi. Dómari hafnaði þessum ásökunum hennar en synjaði Allen um forræði yfir börnunum þremur.

Uppljóstrunin liður í hefnd?

Farrow sendi Allen eitt sinn kort á Valentínusardaginn eftir sambandsslitin með mynd af sér með börnunum þremur. Hafði hún stungið tannstöngli í brjóst þeirra allra og sagði þetta sýna hversu mörg líf hann hafi eyðilagt í þessari fjölskyldu. Hafa sumir sagt að uppljóstrun hennar nú hvað varðan faðerni Ronan sé liður í hefnd hennar gagnvart Allen.

Farrow ættleiddi sex börn til viðbótar og hélt alltaf góðu sambandi við Sinatra allt til andláts hans árið 1998. Hann studdi hana í gegnum skilnaðinn við Allen og bauðst jafnvel til þess að senda einhverja félaga sína úr mafíunni til þess að fótbrjóta leikstjórann í hefndarskyni.

Unanfarin ár hefur Farrow einbeitt sér að mannúðarstörfum, meðal annars fyrir Unicef. Árið 2008 valdi Times tímaritið hana sem eina af áhrifamestu manneskjum heimsins. Hún hefur hins vegar látið lífið fyrir sér fara undanfarinn áratug opinberlega. Árið 2005 bar hún vitni í Polanski málnu gegn Vanity Fair og árið 2010 bar hún viti fyrir stríðsglæpadómstólnum í Haag í máli gegn Charles Taylor, fyrrverandi forseta Líberíu.

Hún hefur heldur ekki farið varhluta af sorginni því tvær dætur hennar Tam og Lark eru látnar. Tam lést úr hjartabilun árið 2000 nítján ára að aldri en hún hafði lengi glímt við veikindi. Lark lést á jóladag árið 2008 35 ára að aldri. Banamein hennar var lungnabólga en hún var með alnæmi.

En eins og Mia Farrow sagði eitt sinn: „Lífið snýst um að glata öllu fullur þakklætis.“

Hér er hægt að lesa umfjöllun Telegraph í heild

Frekari upplýsingar um Miu Farrow

Ronan Farrow og Mia Farrow
Ronan Farrow og Mia Farrow AFP
Mia Farrow og Robert Redford í The Great Gatsby árið …
Mia Farrow og Robert Redford í The Great Gatsby árið 1974
Kvikmyndin Rosmary's Baby
Kvikmyndin Rosmary's Baby
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert