Telur að Grikkir yfirgefi evruna

AFP

Grikkland mun óhjákvæmilega yfirgefa evrusvæðið og bresk stjórnvöld verða að grípa til aðgerða til þess að draga úr neikvæðum áhrifum þess á hagsmuni Bretlands. Þetta er haft eftir Kenneth Clarke, fyrrverandi fjármálaráðherra Bretlands, á fréttavef Daily Telegraph.

Clarke, sem situr á þingi fyrir breska Íhaldsflokkinn og er þekktur fyrir jákvæða afstöðu sína til Evrópusambandsins og evrunnar, segir ómögulegt að verða við kröfum ríkisstjórnar Grikklands um afskriftir skulda landsins. Segist hann ekki sjá skynsamleg rök með því að Grikkir geti komist hjá greiðsluþroti og að þurfa að segja skilið við evrusvæðið.

Viðræður hafa staðið yfir að undanförnu með hléum á milli grískra stjórnvalda og fjármálaráðherra evruríkjanna um skuldastöðu Grikklands og kröfur þarlendra ráðamanna en þær hafa enn sem komið er ekki skilað neinum árangri.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert