Talin hafa tælt stúlkurnar

Aqsa Mahmood er talin hafa átt þátt í að fá …
Aqsa Mahmood er talin hafa átt þátt í að fá þrjár skólastúlkur til að koma til Sýrlands. Skjáskot CNN

Aqsa Mahmood kvaddi föður sinn í nóvember árið 2013, þá 19 ára gömul en þau bjuggu í Glasgow í Skotlandi. Fjórum dögum síðar hringdi hún í foreldra sína en þá var hún á leið yfir landamæri Tyrklands og Sýrlands. Hún ætlaði að ganga til liðs við hryðjuverkasamtökin íslamska ríkið.

Eftir þetta hefur henni nokkrum sinnum brugðið fyrir á samfélagsmiðlum en þar hefur hún meðal annars birt myndir af AK-47 rifflum og myndskeið af aftökum samtakanna.

Sumar færslur Mahmood á Tumbrl-síðu hennar benda til þess að þær séu skrifaðar af annarri og eldri manneskju en aðrar bera þess merki að vera skrifaðar af ungri konu. Nú er talið að Mahmood hafi tekið þátt í að tæla þrjár skólastúlkur til Sýrlands.

Fjölskyldur stúlknanna þriggja sem fóru til Tyrklands í síðustu viku vilja vita hvort yfirvöld í Bretlandi hefðu getað gera meira til að stöðva þær en vitað er að að minnsta ein þeirra hafði samband við Mahmood áður en þær héldu af stað.

Ekki er vitað hvað vakti áhuga hinnar ungu Mahmood á hryðjuverkasamtökunum. Þó er vitað að hún horfði á athafnir og spjallaði við fólk í gegnum internetið sem hvatti hana til að ganga til liðs við samtökin. Samkvæmt CNN leggja samtökin mun meiri áherslu á að ná til kvenna en önnur hryðjuverkasamtök.

Shamima Begum, Kadiza Sultana og Amira Abase eru 15 og 16 ára. Abase sagði föður sínum að hún væri að fara í brúðkaup. Þess í stað fór hún ásamt hinum tveimur út á flugvöll og flaug til Tyrklands. Fjölskyldur stúlknanna vita ekki hvar  þær eru og hafa beðið þær um að koma heim.

„Við vitum ekki hvað kom fyrir hana. Hún elskaði skólann, hún var mjög vinaleg. Ég hef aldrei öskrað á hana,“ sagði faðir Mahmood í viðtali við CNN í september á síðasta ári. Þegar átök hófust í Sýrlandi fór hún að biðja reglulega og lesa Kóraninn. Móðir hennar segir að dóttir hennar hafi alltaf átt erfitt með að fljúga og henni hafi liðið illa þegar fólk öskraði.

Á Tumblr-síðu sinni hvetur Mahmood aðra til að vera sterka fyrir samtökin enda skili sér það ríkulega. Varar hún við að erfitt geti verið að yfirgefa fjölskyldu sína en fjölskyldan sem maður eignist innan samtakanna sé líkt og perla samanborið við „skelina sem þú hentir í sjóinn,“ skrifar hún. „Fyrsta símtalið sem þú hringir þegar þú ferð yfir landamærin verður eitt það erfiðasta sem þú hefur gert. Foreldrar þínir eru þegar afar áhyggjufullir.“

Á myndinni sjást stúlkurnar ganga gegnum öryggishlið á Gatwick-flugvelli 17. …
Á myndinni sjást stúlkurnar ganga gegnum öryggishlið á Gatwick-flugvelli 17. febrúar sl. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert