Berlusconi lauk samfélagsþjónustu

Silvio Berlusconi, fyrrverandi forsætisráðherra Ítalíu, lauk í dag samfélagsþjónustu sem hann hafði verið dæmdur til að gegna vegna skattsvika. Frá því í maí í fyrra hefur hann hjálpað til á hjúkrunarheimili fyrir Alzheimer-sjúklinga einu sinni í viku.

Aðdáendur Berlusconis biðu fyrir utan hjúkrunarheimilið í morgun og tóku honum fagnandi. Þeir vilja að hann snúi aftur í stjórnmálin og hjálpi til við að rífa fylgi hægriflokksins Forza Italia aftur upp. Vinsældir flokksins hafa dalað að undanförnu.

Berlusconi var í fyrra dæmdur í fjögurra ára fangelsi fyrir skattsvik. Vegna aldurs, en þessi fyrrum leiðtogi verður 79 ára síðar á árinu, þurfti hann ekki að afplána fangelsisdóminn, heldur var honum gert að gegna samfélagsþjónustu í eitt ár.

Afplánuninni átti fyrst að ljúka 1. maí næstkomandi, en dómarar við dómstól í Mílanó ákváðu að draga úr refsingunni vegna góðrar hegðunar Berlusconis.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka