Refsiaðgerðir þrátt fyrir samkomulag

Íranar tóku vel á móti samninganefnd sinni sem ræddi við …
Íranar tóku vel á móti samninganefnd sinni sem ræddi við fulltrúa sex heimsvelda um kjarnorkuáætlun landsins. AFP

Líklegt er að mörg ríki Bandaríkjanna haldi sínum eigin refsiaðgerðum gegn Írönum í gildi jafnvel þó að endanlegt samkomulag náist um kjarnorkuáætlun þeirra sem feli í sér að refsiaðgerðum gegn þeim verði aflétt að hluta. Sum ríki íhuga jafnvel nýjar refsiaðgerðir.

Á þriðja tug ríkja í Bandaríkjunum eru með eigin viðskiptaþvinganir gegn Íran, til dæmis með því að refsa fyrirtækjum með því að banna opinberum lífeyrissjóðum að fjárfesta í þeim eða meina þeim um að fá samninga við hið opinbera. Í að minnsta kosti helmingi þessara ríkja falla refsiaðgerðirnar aðeins úr gildi ef Íran verður tekið af lista bandarískra stjórnvalda yfir ríki sem talin eru styðja hryðjuverk eða ef öllum refsiaðgerðum alríkisstjórnarinnar verður aflétt. Ólíklegt er að svo verði jafnvel þó að samkomulag náist við Írana.

Fulltrúar þeirra ríkja sem Reuters-fréttastofan hefur haft samband við segja að þeir muni ekki breyta refsiaðgerðum sínum gegn Íran jafnvel þó að samningur náist. Aðrir segja að breyta þyrfti ríkislögunum sérstaklega jafnvel þó að alríkisstjórnin geri alþjóðlegt samkomulag um að aflétta hluta refsiaðgerða sinna gegn Íran.

Íranar og sex heimsveldi hafa sett sér frest til 30. júní til að ná endanlegu samkomulag um kjarnorkuáætlun þeirra fyrrnefndu. Samkvæmt því yrði áætluninni sett takmörk til að koma í veg fyrir að Íranar geti þróað kjarnorkuvopn en í staðinn verði refsiaðgerðum létt af þeim að hluta til.

Frétt Reuters af refsiaðgerðum bandarískra ríkja gegn Íran

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert