Dómi yfir Bob Hewitt frestað

Bob Hewitt
Bob Hewitt AFP

Dómari í Suður-Afríku hefur frestað ákvörðun refsingar yfir fyrrverandi tennisleikaranum Bob Hewitt sem var í síðasta mánuði fundinn sekur um að hafa nauðgað tveimur ungum stúlkum sem hann þjálfaði.

Hewitt, sem er 75 ára að aldri, er fæddur Ástralíu en hefur búið stóran hluta ævi sinnar í Suður-Afríku. Hann er einn fárra tennisleikara sem hefur farið með sigur af hólmi í öllum Grand Slam keppnunum í tennis, bæði í einliða- og tvíliðaleik karla (US Open, Wimbledon, Australian Open, French Open).

Dómurinn verður kveðinn upp um miðjan maí en Hewitt neitaði sök í málinu þar sem hann var ákærður fyrir að hafa nauðgað tveimur stúlkum og ráðist á þá þriðju á níunda áratug síðustu aldar. Konurnar þrjár lögðu fram kæru gegn honum árið 2013. Þær segja að hann hafi ráðist á þær þegar þær voru í einkakennslu hjá honum á unglingsárum sínum.

Hewitt var tekinn inn í frægðarhöll Alþjóða tennissambandsins árið 1992 en þegar ásakanir á hendur honum komu fyrst fram árið 2012 var nafn hans strokað út af listanum. Hann hefur einnig verið sakaður um kynferðislegt ofbeldi í Bandaríkjunum en hann hefur ekki verið ákærður þar.

Tennisstjarna dæmd fyrir nauðganir

Fyrrum tennisstjarna ákærð

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert