Kafbátsflak í sænskri lögsögu

Hvað er þetta eiginlega? Mynd af því sem talið er …
Hvað er þetta eiginlega? Mynd af því sem talið er að sé hugsanlega kafbátur í sænska skerjafirðinum. Myndin er tekin í október í fyrra. AFP

Sænsku yfirvöld tilkynntu í dag að kafbátsflak hefði fundist í um einnar og hálfrar sjómílu fjarlægð frá landinu. Fyrirtækið Ocean X Team fann kafbátinn, en yfirvöld vilja ekki gefa upp nákvæma staðsetningu hans. Þetta kemur fram á Expressen. Kafbáturinn gæti verið rússneskur.

„Við erum 110% viss um að báturinn sé innan sænskrar lögsögu,“ segir Dennis Åsberg hjá Ocean X Team, sem fann flakið. Fyrirtækið fékk upplýsingar um mögulega staðsetningu flaksins frá íslensku fyrirtæki.

„Við byrjuðum að leita á svæðinu þar sem Íslendingarnir bentu okkur á. Stuttu síðar fundum við kafbátinn.“

Samkvæmt Åsberg er kafbáturinn 20 metra langur og þriggja metra breiður. Engin ummerki eru um skemmdir utan á bátnum og allar lokur á honum eru lokaðar. „Það er hvergi að sjá dæld, rifu eða nokkurn skaða á skipsskrokknum. Það bendir til þess að áhöfnin sé enn um borð,“ segir Dennis Åsberg.

Lítur ekki út fyrir að vera gamall

Öryggisráðgjafinn og rithöfundurinn Joakim von Braun hefur verið látinn vita af fundinum. „Það gæti verið að að báturinn hafi ekki verið þarna lengi. Hann lítur vel út og ég ímynda mér að hann hafi bilað í prófunum,“ segir hann.

Tomas Ries, lektor í herfræðum og öryggismálum við Heimavarnarskólann (s. Försvarshögskolan) segist hafa séð myndbrot frá Ocean X Team og tekur undir að hann lítur ekki út fyrir að vera gamall.

„Hefði þetta verið eðlileg sendiför hefði áhöfnin að öllum líkindum sent frá sér neyðarkall. Það bendir til þess að kafbáturinn hafi verið í leynilegri sendiför. Það er mjög alvarlegt,“ segir hann.

Fólkið sem fann flakið segist auk þess hafa séð kýrilískt letur á flakinu. „Við vitum að þetta er kafbátur. Það er ekki nokkur leið að segja nákvæmlega til um aldurinn, en hann virðist nýlegur. Við getum ekki sagt til um hvað hann hafi verið lengi á hafsbotni fyrr en við förum í annan leiðangur,“ segir Dennis Åsberg.

Anders Kallin, yfirmaður hjá sænska hernum, segir fyrirtækið hafa sett sig í samband við herinn. Hann staðfestir að fulltrúar hersins séu að skoða myndefnið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert