Trúrækni háskólanema dvínar

Frá Harvard-háskóla í Bandaríkjunum.
Frá Harvard-háskóla í Bandaríkjunum.

Fleiri nýnemar við Harvard-háskóla í Bandaríkjunum skilgreina sjálfa sig sem efasemdamenn eða trúleysingja en kaþólikka eða mótmælendur. Yngri kynslóðir Bandaríkjamanna eru almennt ólíklegri til að aðhyllast trúarbrögð nú en áður en sú þróun er enn lengra komin hjá háskólafólkinu.

Í könnun sem gerð var á meðal nýnema kom í ljós að 21,3% skilgreindu sig sem efasemdamenn um yfirnáttúrulega efni og 16,6% sem trúleysingja, samtals 37,9%. Samanlagt er það því stærri hópur en þeir sem telja sig kaþólikka (17,1%) eða mótmælendur (17%).

Af Bandaríkjamönnum almennt telja um 52% svokallaðrar þúsaldarkynslóðar (e. Millenials), fólks á aldrinum 18-34 ára, sig kaþólsk eða mótmælendatrúar borið saman við 34% nýnema Harvard. Einnig er hlutfall þeirra sem eru fullir efasemda eða trúlausir mun lægra hjá þessari kynslóð almennt en í Harvard, um 13%.

Fjölgun þeirra sem eru ekki trúaðir og fækkun kristinna hefur verið viðvarandi á meðal árganga skólans þau þrjú ár sem könnunin nær til. Þannig töldu 42,4% árgangsins sem útskrifast árið 2017 sig kaþólikka eða mótmælendur, 37% árgangsins á eftir og 34,1% nýjasta árgangsins.

Á sama tíma hefur efasemdarmönnum og trúlausum fjölgað úr 32,4% í útskriftarárganginum 2017, 35,6% árið 2018 og nú 37,9% fyrir árið 2019.

Frétt Washington Post um trúhneigð nýnema við Harvard-háskóla

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert