Tólf skólastúlkur tróðust undir

Tólf skólastúlkur létust þegar þær tróðust undir í skóla sínum í kjölfar jarðskjálftans í Afganistan í morgun. Að minnsta kosti 52 létust í Pakistan. Jarðskjálftinn, sem átti upptök sín í Afganistan, var 7,5 stig og skók hann stóran hluta Suður-Asíu.

Í Pakistan er vitað um að 28 létust í norðurhluta landsins og 20 í norðvesturhluta. Þrír létust í Gilgit-Baltistan og einn í Kasmír héraði. 

Skólastúlkurnar voru í skóla sínum í Takhar héraði þegar jarðskjálftinn reið yfir. Mikil múgsefjun myndaðist og reyndu stúlkurnar að komast út úr skólahúsinu í Taluqan borg með þessum hörmulegu afleiðingum, segir Enayat Naweed yfirmaður menntamála í Takhar. 35 skólastúlkur slösuðust en ekki kemur fram á hvaða aldri þær eru.

Að minnsta kosti átján létust í skjálftanum í norðausturhluta Afganistan og vara stjórnvöld við því að sú tala eigi eftir að hækka eftir því sem frekari upplýsingar berast. 

Af þeim sem eru látnir í Afganistan og Pakistan eru fjölmörg börn, samkvæmt fréttum AFP og fleiri fjölmiðla.

AFP
Frá Bazarak sýslu í Panjshir héraði í Afganistan.
Frá Bazarak sýslu í Panjshir héraði í Afganistan. AFP
AFP
AFP
AFP
AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert