Í lífshættu vegna vosbúðar

Hjálparstarfsmenn óttast um afdrif fólks sem missti heimili sín í jarðskjálftanum í Afganistan og Pakistan. Mikil hætta sé á að þetta fólk deyi úr vosbúð og mikil þörf sé að koma hjálpargögnum, svo sem tjöldum og teppum, til þeirra sem hafast við úti en afar kalt er á þessum slóðum. Börn eru í mestri hættu segja hjálparstarfsmenn sem eru að störfum á hamfarasvæðinu. Þúsundir sváfu úti í nótt, margir vegna ótta við að annar jarðskjálfti ríði yfir en jarðskjálftinn á mánudag var 7,5 stig. Þar hefur bæði rignt á einhverjum stöðum og snjóað mikið á öðrum undanfarna tvo daga.

Vitað er um 360 sem létust í skjálftanum en búist er við að tala látinna hækki þegar björgunarmenn komast til fjallahéraða í Afganistan sem einangruðust í jarðskjálftanum og skriðuföllum sem fylgdu honum. Lögreglan í borginni Peshawar í Pakistan sagði að ekki hefði náðst samband við yfirvöld í héraðinu Kohistan vegna þess að öll fjarskipti við það rofnuðu og vegir lokuðust. Íbúar héraðsins eru tæp hálf milljón.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert