Dæmdur til dauða fyrir trúleysi

Dauðarefsing liggur við því að ganga af trúnni í Sádí-Arabíu. …
Dauðarefsing liggur við því að ganga af trúnni í Sádí-Arabíu. Myndin er úr safni og tengist efni fréttarinnar ekki með beinum hætti. AFP

Palestínska ljóðskáldið Ashraf Fayadh hefur verið dæmdur til dauða í Sádí-Arabíu fyrir að hafna íslam. Upphaflega var hann dæmdur í fangelsi og til hýðingar en stuðningsmenn segja að dómnum hafi verið breytt vegna myndbands sem hann birti af trúarlögreglu landsins húðstrýkja manna á almannafæri.

Fayadh fékk þrjátíu daga til að áfrýja dómnum eftir að hann var kveðinn upp á þriðjudag. Hann hefur hins vegar engan lögmann vegna þess að persónuskilríki voru tekin af honum þegar hann var handtekinn í janúar í fyrra.

Trúarlögreglan handtók hann fyrst í ágúst árið 2013 eftir að kvartanir höfðu borist um að hann hefði formælt guði og spámanninum Múhameð, móðgað Sádí-Arabíu og dreift ljóðabók þar sem talað væri fyrir trúleysi. Sjálfur hefur Fayadh sagt að kvartanirnar hafi verið lagðar fram vegna persónulegra deilna við annan listamann eftir umræður um nútímalist á kaffihúsi í Abha.

Fayadh, sem hefur verið áberandi í takmörkuðu listalífi Sádí-Arabíu, var dæmdur í fjögurra ára fangelsi og til þess að þola 800 svipuhögg í maí í fyrra. Hann tapaði hins vegar áfrýjun málsins og í kjölfarið var það tekið aftur til dóms. Þá var niðurstaðan sú að hann skyldi líflátinn. Stuðningsmenn hans telja að ástæðan sé sú að harðlínuöfl í landinu vilji koma honum fyrir kattarnef fyrir að hafa birt myndbandið af trúarlögreglunni.

Við réttarhöldinn yfir honum báru fulltrúar trúarlögreglunnar að hann hefði guðlastað opinberlega, haldið trúleysi að ungu fólki og átt í ólögmætum samskiptum við konur og geymt myndir af þeim í síma sínum. Fayadh sagði hins vegar að konurnar væru listamenn og myndirnar sem vísað væri til, sem hann birti sumar á Instagram, hefðu verið teknar á listaviku í borginni Jeddah.

Adam Coogle frá mannréttindasamtökunum Human Rights Watch segir dauðadóm Fayadh sýna algert óþol stjórnvalda í Sádí-Arabíu gagnvart hverjum þeim sem aðhyllist ekki trúarlegar, pólitískar og félagslegar skoðanir þeirra sjálfra.

mbl.is