„Óbætanlegur skaði“ vegna pyntinga

Jason Rezaian.
Jason Rezaian. Ljósmynd/Twitter

Bandaríski blaðamaðurinn Jason Rezaian ætlar að lögsækja íranska ríkið en honum var haldið föngnum þar í landi í 18 mánuði.

Í lögsókninni kemur fram að Rezaian hafi orðið fyrir „óbætanlegum skaða“ vegna pyntinga og slæmrar meðferðar. Eiginkonu Rezaian var einnig haldið í 72 daga.

Hjónin voru hand­tek­in á heim­ili sínu í Teher­an í júlí 2014 en Reziain starfaði sem frétta­rit­ari banda­ríska blaðsins Washingt­on Post.

Hann var sakaður um njósnir en hann kom fjórum sinnum fyrir bylt­ing­ar­dóm­stól­inn í höfuðborg­inni. Dómstóllinn fjallar um mál sem tengjast þjóðaröryggi. Til­kynnt var um á sín­um tíma að Rezai­an hafi verið fund­inn sek­ur 11. októ­ber síðastliðinn og að hann hefði tæki­færi til að áfrýja niður­stöðunni. Írönsk yf­ir­völd op­in­beruðu aldrei dóm­inn.

Rezian segir að hann hafi ekki mátt sofa í fangelsinu, hann hafi stanslaust verið yfirheyrður og neitað um lágmarkssjúkraþjónustu vegna meiðsla og sýkinga.

Hann léttist um tæp 23 kíló í fangelsinu vegna þess að maturinn innihélt stundum „steypu, steina eða aðra hluti.“ Fangaverðir hótuðu að limlesta konu hans og henda honum fram af kletti.

Íranar slepptu fjórum bandarískum föngum, þar á meðal Rezian, í janúar. Lausn þeirra var sögð liður í fanga­skipt­um á milli ír­anskra og banda­rískra stjórn­valda. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert