Hundruð snjóhlébarða drepnir á ári

Elsti snjóhlébarði sem vitað er um varð 26 ára og …
Elsti snjóhlébarði sem vitað er um varð 26 ára og bjó í Tama dýragarðinum í Tokyo. Wikipedia/Steve Tracy

Hundruð snjóhlébarða eru drepnir á ári hverju en loftlagsbreytingar hafa einnig áhrif á lífskjör dýranna, þar sem kjörlendi þeirra fer sífellt minnkandi. Þetta kemur fram í skýrslu frá Traffic, eftirlitsneti um viðskipti með dýr í útrýmingarhættu.

Í frétt The Guardian um skýrsluna kemur fram að veiðiþjófnaður í fjalllendi í Mið-Asíu sé mikið áhyggjuefni. Dýrin eru nú þegar í útrýmingarhættu og aðeins um 4000 eru eftir. 220-450 snjóhlébarðar eru drepin á hverju ári og telur Traffic að talan sé í raun enn hærri, þar sem veiðiþjófar leiti oft til afskekkra svæða. Samkvæmt skýrslunni hefur 20% snjóhlébarðastofnsins verið drepinn á síðustu 16 árum.

Yfir helmingur snjóhlébarða er drepinn af bændum vegna árása dýranna á búpening. Um 20% lendir í gildrum sem ætlaðar eru fyrir önnur dýr og önnur 20% eru drepin fyrir feldinn. Þá kemur fram að feldur af snjóhlébörðum sem drepnir eru í öðrum tilgangi endi einnig oft á ólöglegum loðfeldsmörkuðum.

Snjóhlébarðar finnast í 12 löndum í heiminum en 90% þeirra eru drepnir í fimm landanna, aðallega í Kína og Mongólíu. Til að sporna við drápunum mæla höfundar skýrslunnar með girðingum sem halda snjóhlébörðunum frá og tryggingakerfi sem bætir bændum mögulegan skaða. Strangari löggæsla er einnig nauðsynleg en aðeins um fjórðihluti þekktra veiðiþjófnaðarmála eru rannsökuð og einungis eitt af hverjum sjö málum fer fyrir dóm.

Skaðabótakerfi i eru nú þegar í notkun á einhverjum stöðum. Þau virka vel þar sem þau eru en Rishi Sharma, meðhöfundur skýrslunnar, segir að þeim þurfi að koma á á fleiri stöðum. Segir hann að jafnvel þó eftirspurn eftir snjóhlébarðafeldi minnki, haldi drápin áfram. Allir þurfi að vinna saman að því að minnka ágreining milli manna og dýralífs.

mbl.is