Boðar dauðalista í beinni

Michael Vance.
Michael Vance. Lögreglan í Oklahoma

Bandaríska alríkislögreglan leitar nú manns sem grunaður er um að hafa myrt tvo. Hann hefur verið í beinni útsendingu á Facebook á flóttanum.

Michael Vance, 38 ára, birti á sunnudagskvöldið tvö myndskeið sem hann streymdi á Facebook eftir að hafa lent í skotbardaga við lögreglu og sært tvo lögreglumenn í Oklahoma. Vance flúði lögreglu á lögreglubíl sem hann stal og fór heim til tveggja ættingja sinna og myrti.

Vance gefur til kynna í myndskeiði að hann ætli að láta til skarar skríða gegn fólki sem sakaði hann um kynferðislegt ofbeldi gagnvart unglingsstúlku.

„Ég vildi láta ykkur öll vita að mér er alvara,“ segir Vance klæddur alblóðugri skyrtu, í einu af streymismyndskeiðinu á Facebook. Lögregla telur að myndskeiðið sé tekið upp í lögreglubílnum sem hann stal skömmu áður. 

„Ef þið viljið vita hvað gerist næst skulið þið fylgjast með staðbundnu fréttastöðvunum,“ segir Vance í myndskeiðinu og bætir við að það eigi heldur betur eftir að hitna í kolunum.

 Í öðru myndskeiði beinir hann myndavél snjallsímans að einhverju sem hann segir að sé AK-47 riffill í framsæti bílsins og er það í samræmi við lýsingar fólks sem á vegi hans varð, en Vance á að hafa skotið fleiri með slíkum riffli.

Samkvæmt BBC hófst blóðbaðið á sunnudagskvöldið þegar tveir lögreglumenn svöruðu beiðni um aðstoð vegna skothvella sem heyrðust í Wellston, 56 km norðaustur af Oklahoma-borg. Báðir lögreglumennirnir særðust í skotbardaganum við Vance, að sögn yfirvalda. 

Annar þeirra, Jim Hampton, sem fékk skot í fótinn, segir í viðtali við sjónvarpsstöð í Oklahoma, KOCO, að hann hafi hæft þann grunaða í tvígang. „Hann féll aftur til jarðar og lá þar í nokkrar mínútur en reis á fætur á ný. Skotbardaginn hófst á ný,“ segir Hampton í viðtalinu og bætir við að um tíma hafi þeir, hann og Vance í raun staðið andspænis hvor öðrum og skotið.

Lögreglustjórinn í Lincoln-sýslu segir að Vance hafi flúið af vettvangi í lögreglubifreið en hann er síðan grunaður um að hafa skotið konu skömmu síðar og stolið bifreið hennar. Þaðan fór hann á heimili tveggja ættingja og myrti. 

Að sögn lögreglu á Vance að hafa reynt að afhöfða Robert Everett Wilkson, 55 ára, og höggvið handlegginn af  Valeri Kay Wilkson, 54 ára. Bæði létust af völdum áverkanna. Eins er Vance grunaður um að hafa skotið mann í fótlegginn þegar hann reyndi að stela bifreið mannsins snemma á mánudagsmorgninum ekki langt frá ríkismörkum Texas.

Ekki er langt síðan Vance var látinn laus úr fangelsi í Oklahoma, en þar var hann í gæsluvarðhaldi grunaður um að hafa beitt 15 ára stúlku kynferðislegu ofbeldi. Í næsta mánuði á hann að mæta fyrir dóm þar sem honum verður birt ákæra. Ekkert hefur spurst til hans síðan á mánudag og að sögn lögreglu gæti hann verið nánast hvar sem er - allt frá Kaliforníu til Mexíkó eða Flórída.

Að sögn lögreglu ber Vance smitsjúkdóm sem talið er að hann muni jafnvel reyna að dreifa, en ekki eru veittar upplýsingar um hvaða sjúkdóm er að ræða. Fjölmiðlar vestanhafs segja að hann sé HIV-smitaður. Fólk er beðið um að reyna alls ekki að ræða við hann heldur forða sér strax.

Vance er á sakaskrá meðal annars fyrir skjalafals, vörslu fíkniefna og líkamsárás.

Frétt CBS

mbl.is

Bloggað um fréttina

HRINGSTIGAR _ HRINGSTIGAR
Hringstigar, úti sem inni. Þvermál 120, 130, 140, 150, 160, 170 cm og sérsmíði í...
Kolaportið alltaf gott veður!
Góða veðrið og góða skapið er í KOLAPORTINU!...
EIGUM ALLSKONAR STIGA Á LAGER
Einnig sérsmíði, sjáið úrvalið t.d. á: www.sogem-stairs.com/en_home-home.php L...
Viltu vita hvað er framundan ?
Segi þer það sem þeir sem farnir eru segja mer um framtíð þína. Bollar og tar...