Brann upp á leið út í geiminn

Geimflaugin sem um ræðir.
Geimflaugin sem um ræðir. AFP

Ómannað geimfar á leið til Alþjóðlegu geimstöðvarinnar brann upp í gufuhvolfinu skömmu eftir að því var skotið á loft í dag. Þetta segir geimferðastofnun Rússlands.

Atburðurinn hefur vakið upp áhyggjur um öryggi slíkra ferðalaga út í geiminn.

„Samkvæmt bráðabirgðaupplýsingum og vegna óeðlilegs ástands misstum við geimfarið um 190 kílómetrum fyrir ofan fjallgarð þar sem engin íbúabyggð er, á svæðinu Tuva. Megnið af geimfarinu brann upp í gufuhvolfinu,“ sagði í yfirlýsingunni.

Verið er að rannsaka hvað fór úrskeiðis.

Geimfarið átti að ná til geimstöðvarinnar á laugardaginn. Það hafði meðferðis 2,4 tonn af eldsneyti, mat og ýmsum búnaði þegar það tók á loft.

Þetta er í annað sinn á tveimur árum sem ferð slíks geimfars misheppnast.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert