Viðræðurnar „lamaðar“ síðan 2013

Karel De Gucht, fyrrverandi yfirmaður viðskiptamála Evrópusambandsins.
Karel De Gucht, fyrrverandi yfirmaður viðskiptamála Evrópusambandsins. AFP

Fríverslunarviðræður Bandaríkjanna og Evrópusambandsins hafa verið „lamaðar“ allar götur frá frá því sumarið 2013, sama ár og þær hófust formlega. Þetta segir Karel de Gucht, fyrrverandi yfirmaður viðskiptamála í framkvæmdastjórn sambandsins, í viðtali við hollenska dagblaðið Financieele Dagblad í dag.

De Gucht fór fyrir viðskiptamálum Evrópusambandsins þegar fríverslunarviðræðurnar hófust og í aðdraganda þess en hann gegndi embættinu frá 2010-2014. Áður var hann utanríkisráðherra Belgíu og yfirmaður alþjóðasamvinnu í framkvæmdastjórninni.

Haft er ennfremur de Gaucht að bandarísk stjórnvöld hafi aldrei lagt fram raunverulegar gagntillögur varðandi aðgang að opinberum útboðum í Bandaríkjunum. Bandaríkjamenn hafi lagt alla áherslu á að halda þeim fyrir bandarísk fyrirtæki. Evrópusambandið hafi viljað að fyrirtæki innan þess hefðu sama aðgang en ríkisstjórn Baracks Obama, fyrrverandi Bandaríkjaforseta, hafi ekki tekið það í mál.

De Gucht segir að fríverslunarviðræðurnar hafi einkum strandað á þessu. Bandaríkjamenn þyrftu að viðurkenna þetta. Ekki væri hægt að biðja Frakka um að samþykkja að dregið verði úr tollvernd landbúnaðarvara ríkja innan Evrópusambandsins á meðan Bandaríkjamenn stæðu fastir á þessu. 

Þannig hafi fríverslunarviðræðurnar ekki strandað vegna þess að Donald Trump hafi verið kosinn forseti Bandaríkjanna. Vandamálið hefði ekki horfið þó Hillary Clinton hafði verið kosin forseti. Jafnvel þó svo hefði farið væru engar líkur á að fríverslunarsamningi hefði verið landað á þessu ári. Upphaflega stóð til að samningur lægi fyrir 2014.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert