Vitni greindi frá meintri misnotkun

Gamanleikarinn Bill Cosby.
Gamanleikarinn Bill Cosby. AFP

Vitni í réttarhöldunum sem eru hafin yfir gamanleikaranum Bill Cosby sagði að hann hefði byrlað sér lyf og misnotað kynferðislega árið 1998.

Cosby hefur verið sakaður um að hafa beitt sömu aðferð í meintri árás hans á Andreu Constant árið 2004 en verið er að rétta yfir honum vegna þess.

Vitnið Kelly Johnson sagði að Cosby hefði látið hana fá töflu til að „slaka á“. Hún hafi upphaflega falið hana undir tungunni en Cosby athugaði þá hvort hún hefði gleypt hana.

Síðar vaknaði hún hálfklædd í rúmi Cosby og var hann þá fyrir aftan hana. Hún sagði hann hafa neytt sig til að snerta kynfæri hans.

„Ég var að reyna að segja eitthvað,“ sagði hún. „Ég veit ekki hvort ég var að tala í raun og veru.“

Saksóknarinn í málinu, Kristen Feden, sagði við kviðdóminn að Cosby hafi „notað vald sitt og frægð og þær aðferðir sínar að setja ungar konur sem treystu honum í varnarlaust ástand svo hann gæti svalað kynferðislegum fýsnum sínum“.

Cosby, sem  er 79 ára, hefur neitað þessum ásökunum. Að sögn lögfræðings hans samþykkti Constant að stunda með honum kynlíf.

Tugir kvenna segja að Cosby hafi misnotað þær kynferðislega en flest málin eru fyrnd.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert