„Dómarinn vill munnmök að launum“

Óvelkomin snerting,grip eða þukl. er dæmi um kynbundna áreitni.
Óvelkomin snerting,grip eða þukl. er dæmi um kynbundna áreitni.

Yfir fjögur þúsund konur sem starfa í sænska réttarkerfinu skrifa undir ákall um breytingar í karlægu dómskerfi. Þær lýsa sögum af áreitni og ofbeldi tengdu kynferði þeirra í starfi innan réttarkerfisins. „Dómarinn vill munnmök að launum,“ segir í fyrirsögn SvD.

Undanfarnar vikur hafa hundruð ef ekki þúsundir sænskra kvenna greint frá kynferðislegu ofbeldi og áreitni í starfi undir myllumerkinu #MeToo.

Sláandi lýsingar á kynferðislegri áreitni og ofbeldi úr heimi íþrótta, leikhúsa, dagblaða, stjórnmála og í raun í hvaða stétt sem er. Í landi sem gefur sig úr fyrir að standa flestum öðrum framar þegar kemur að jafnréttismálum.

Í dag eru það konur sem starfa innan réttarkerfisins. Á einum degi rituðu 4.445 konur undir áskorun í Svenska Dagbladet undir myllumerkinu #medvilkenrätt. Þar er farið fram á að gripið verði til aðgerða gegn áreitni og misnotkun valds innan dómskerfisins.

„Í starfi mínu barðist ég fyrir réttindum annarra en ég nýt engra réttinda sjálf,“ skrifar ein kona sem segir tímabilið þar sem hún starfaði fyrir lögmannsstofu sem sérhæfir sig í að starfa fyrir viðskiptalífið. „Þetta voru verstu ár lífs míns,“ segir hún.

Skipuleggjendur herferðarinnar segja að vitnisburður svo margra kvenna hafi borist að þeir hafi þurft að loka á innsendingar.

Ein kona lýsir því hvernig saksóknari hafi ítrekað áreitt hana, hringt og sent henni skilaboð. Þegar hún hafnaði boði um kvöldverð tók ekki betra við því hann hótaði því að eyðileggja feril hennar.

Þegar hún sagðist ekki hafa áhuga á honum fékk hún svarið að hún væri „helvítis hóra,“ og hann þekkti fullt af fólki sem gæti tryggt að hún fengi aldrei starf í greininni.

„Með hverjum skilaboðum urðu hótanirnar alvarlegri og síðan bættust við hótanir um árásir og ofbeldi,“ skrifar hún.

Önnur kona lýsir því hvernig dómari hafi sýnt henni myndir af þremur sakborningum í nauðgunarmáli. „Hann spurði mig hverjum þeirra ég vildi helst vera nauðgað af,“ skrifar konan.

Í einhverjum tilvikum beinist umræðan að karllægu viðhorfi gagnvart fólki sem réttarkerfið á að verja. Í nauðgunarmáli var kona beðin um að safna upplýsingum um ákæranda, fatnað ofl. til þess að sýna fram á hversu mikil dræsa hún væri. „Ég neitaði þar sem það tengdist málinu ekki neitt og var einfaldlega neyðarlegt,“ skrifar konan. Þar sem hún neitaði fékk hann starfsbróður hennar til starfans og útilokaði hana frá málinu.

Ritari við dómstól lýsir því hvernig karlar á vinnustaðnum hafi brugðist við þungun hennar. Þeir hafi tjáð henni að það væri ekki hægt að vinna með henni: „enda viti allir hvað þungaðar konur eru móðursjúkar.“ Önnur kona fékk að heyra það hjá vinnufélaga að hún væri eins og fíll.

Umfjöllun SvD

Umfjöllun Expressen

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert