Borða og drekka fyrir 294 milljarða

Norðmenn gera vel við sig í mat og drykk um ...
Norðmenn gera vel við sig í mat og drykk um hátíðirnar, engu síður en við Íslendingar. Í ár munu þeir nota sem samsvarar tæpum 300 milljörðum íslenskra króna í það sem fer á veisluborðið. mbl.is/ThinkstockPhotos

Norðmenn setja nýtt neyslumet í jólamánuðinum 2017 ef marka má tölur og spár norsku hagstofunnar SSB (Statistisk sentralbyrå) sem tók að fylgjast með jólaneyslu landsmanna árið 2004 og hefur síðan haldið utan um tölfræðina í mat, drykk og almennri neyslu norsku þjóðarinnar um hátíð ljóss og friðar.

Samkvæmt tölum SSB í ár munu Norðmenn verja 23 milljörðum norskra króna, jafnvirði 294 milljarða íslenskra króna, í mat og drykk í desember sem er fjórum milljörðum (51 milljarði ISK) hærri upphæð en varið er að meðaltali í þessa vöruflokka hina ellefu mánuði ársins.

„Mörgum finnst gott að fá sér eitt glas eða tvö með jólamatnum,“ segir í pistli SSB um desembertölfræðina. „Að minnsta kosti er gert ráð fyrir að sala á léttvíni og sterku áfengi verði 81 prósenti meiri í desember en að meðaltali hina mánuðina.“

Ekki verð heldur gæði

Norska ríkisútvarpið NRK gerir úttekt á tölum SSB og ræðir við höfuðskepnurnar þrjár á þessum vettvangi, kaupmann, hagfræðing og manninn á götunni, neytandann. „Almennt greiðir fólk bara það sem varan kostar, óháð því hvað hún kostar. Það er nefnilega ekki verðið sem málið snýst um, heldur gæðin,“ segir Oddbjørn Hole, framkvæmdastjóri Hole kjøtt í Ålesund. Honum kemur eyðsla landa sinna í desember lítið á óvart og segir veltuna hjá sér sexfaldast í mánuðinum.

Í verslun Hole úir og grúir af viðskiptavinum þegar NRK ber að garði og eru þar flestir komnir til að tryggja sér svínarif og pinnakjöt (n. pinnekjøtt) í almennilegum gæðaflokki en þetta tvennt er efst á listanum yfir hefðbundinn jólamat Norðmanna. Fyrir þá sem ekki kannast við pinnakjöt eru þar á ferð þurrkuð og söltuð lambarif með fornar rætur í gömlu bændasamfélagi.

Útgjöldin í mat og drykk segja þó ekki alla söguna því SSB metur heildareyðslu Norðmanna í jólatengda neyslu (mat, drykk, gjafir og allt annað sem heitir jóla-eitthvað) 55,6 milljarða í ár sem samsvarar tæpum 711 milljörðum íslenskra króna.

„Norðmenn hafa öðlast aukin fjárráð og hluti af skýringunni eru lágir vextir í landinu,“ segir Silje Sandmæl, neysluhagfræðingur DnB-bankans. Henni kemur jólaeyðslan ekki á óvart frekar en Hole kaupmanni og segir að önnur hlið á skýringu þessarar eyðslugleði sé fólksfjölgunin í landinu. Sé flett upp á vefsíðu SSB má sjá að íbúum Noregs fjölgaði um 44.332 árið 2016 (18.164 í plús vegna fæðinga og dauða, 26.076 í plús vegna fólksflutninga), voru þeir 5.258.317 í upphafi þessa árs og spáir SSB að Norðmenn verði sex milljónir um 2031 og sjö milljónir fyrir 2060.

„Vil hafa kjötið almennilega þurrkað“

„Ég vil ekki rif [svínarif] frá einhverri lágvöruverðskeðju, ég vil hafa kjötið almennilega þurrkað,“ segir Jorunn Totland, sem NRK rakst á í kjötbúðinni hjá Oddbjørn Hole, og tekur þar með undir orð kaupmannsins um að fólk hugsi um gæðin í desember og blási í verðið. Hilde Drabløs, sem einnig er að kaupa í jólamatinn, segir að sér komi eyðslutölfræðin frá SSB á óvart og raunar bregði henni við. „Þetta er gríðarlega mikið,“ segir Drabløs. Hún segist í fljótheitum skjóta á að hennar fjölskylda, tveir fullorðnir og tvö börn, verði 8.000 krónum, 102.000 íslenskum, fátækari gegnum kostnaðarliði sem beintengdir eru hátíðinni.

Sú upphæð er töluvert lægri en hver Óslóarbúi eyðir í jólahald samkvæmt SSB, en höfuðborgin trónir á toppi jólaeyðslunnar með að meðaltali 11.800, 151.000 íslenskar, krónur á mann. Í öðru sæti er nágrannafylkið Akershus.

Þegar litið er til þeirra vöruflokka sem Norðmenn flagga greiðslukortum sínum sem ákafast fyrir í desember lenda áfengi og matur þó ekki ofarlega, áfengi í sjötta sæti og matur í því fimmtánda. Efstu fimm flokkarnir í desemberneyslunni eru hins vegar þessir:

1) Spil og leikir

2) Tónlist og DVD

3) Úr, klukkur, gull og silfur

4) Bækur

5) Ljósmyndavörur

mbl.is

Bloggað um fréttina