Heimsins „ófríðasta svín“

Chester-dýragarðurinn hefur birt þessa mynd af einu svínanna á Jövu.
Chester-dýragarðurinn hefur birt þessa mynd af einu svínanna á Jövu. AFP

Fágætar myndir af „heimsins ófríðasta svíni“ hafa verið birtar. Myndirnar gefa innsýn í líf sjaldgæfrar tegundar vörtusvína sem talin er á barmi útrýmingar. 

Allt frá því á níunda áratugnum hefur vörtusvínunum á eyjunni Jövu í Indónesíu fækkað ört. Skýringin felst í veiði og minni búsvæðum þar sem sífellt meira land er brotið til ræktunar og búsetu.

Breskir og indónesískir vísindamenn settu í fyrra upp nokkurs konar myndavélagildrur á Jövu í þeirri von að ná myndum af hinum fágætu svínum. Karldýrin eru þekktust fyrir risastórar vörtur á höfði.

Vildu vísindamennirnir fá betri upplýsingar um búsvæði dýranna sem og fjölda þeirra svo hægt væri að meta þá hættu sem tegundin er í.

Vörtusvínin er hvergi að finna annars staðar í heiminum en …
Vörtusvínin er hvergi að finna annars staðar í heiminum en á Jövu. AFP

„Við óttuðumst að mörg og jafnvel öll dýrin væru dauð allt þar til tilvera þeirra var staðfest á myndavélunum,“ segir í tilkynningu frá forsvarsmönnum Chester-dýragarðsins sem sá um uppsetningu myndavélanna. Kemur þar einnig fram að vonin sé að með betri upplýsingum um vörtusvínin verði hægt að bregðast við fækkun þeirra og skipuleggja betur verndun. „Eins og staðan er núna njóta þau ekki verndar samkvæmt indónesískum lögum.“

Svín þessi finnast aðeins á Jövu, hvergi annars staðar í heiminum. Þau líkjast evrópskum villisvínum en eru þó mjóslegnari. 

„Karldýrin eru með þrenn pör varta á höfðinu,“ segir Johanna Rode-Margono, starfsmaður Chester-dýragarðsins. „Það er þess vegna sem þau hafa fengið viðurnefnið ófríðustu svín heims. En í okkar augum og annarra vísindamanna eru þau frekar falleg og tilkomumikil.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert