Segir Trump hafa elt sig á nærfötunum

Donald Trump Bandaríkjaforseti ásamt Melaniu konu sinni og syni þeirra …
Donald Trump Bandaríkjaforseti ásamt Melaniu konu sinni og syni þeirra Barron. Trump er sagður hafa átt í sambandi við Stormy Daniels skömmu eftir að Barron fæddist. AFP

Klámmyndastjarnan Alana Evans segir að sér hafi verið boðið upp á hótelherbergi Donalds Trumps Bandaríkjaforseta árið 2006 og að Stephanie Clifford, sem Wall Street Journal greindi á föstudag frá að hefði fengið greitt fyrir að þegja um samband sitt við forsetann, hafi boðið sér að vera með þeim.

Wall Street Journal greindi frá því á föstudag að lögfræðingur Trumps, Michael Cohen, hefði greitt Clifford, sem notar sviðsnafnið Stormy Daniels, 130.000 dollara í aðdraganda forsetakosninganna. Greiðslunni hefði verið ætlað að koma í veg fyrir að hún ræddi kynlífsstund sem hún hefði átt með Trump skömmu eftir að eiginkona forsetans, Melania, ól honum barn.

Cohen harðneitaði frétt Wall Street Journal og sendi frá sér yfirlýsingar undirritaðar af Clifford, sem segir orðróm um að Trump hafi greitt sér fyrir að þegja um samband þeirra rangan. „Ef ég hefði í raun og veru átt í sambandi við Donald Trump væruð þið ekki að lesa um það í fréttum heldur í bók minni.“

Aðrir bandarískir fjölmiðlar miðlar hafa þó staðfest frétt Wall Street Journal og hafði New York Times eftir ritstjóra hjá Slate Group-fyrirtækinu að Clifford hefði sagt sér frá sambandi sínu við forsetann í nokkrum viðtölum sem hann átti við hana 2016.

Vefmiðilinn Daily Beast segist hafa rætt við klámmyndaleikkonuna Alönu Evans um kynni sín af Trump. „Allt sem ég hef um málið að segja er: Ég endaði með Donald á hótelherbergi hans. Sjáið hann fyrir ykkur elta mig um herbergi sitt á nærfötunum,“ sagði Evans.

Þá er þriðja klámmyndastjarnan, Jessica Drake, einnig sögð hafa skrifað undir samning sem banni henni með öllu að ræða kynni sín af forsetanum, en Drake er ein fjölda kvenna sem sakað hafa forsetann um kynferðislega áreitni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert