Ekkert spurst til ferju með 50 farþegum

Kiribati-eyjar eru í miðju Kyrrahafi.
Kiribati-eyjar eru í miðju Kyrrahafi. Kort/Google

Ekkert er vitað um afdrif ferju sem sást síðast til við Kyrrahafseyjuna Kiribati í síðustu viku. Um 50 manns voru um borð í ferjunni. Leitaraðgerðir eru hafnar en björgunarsveitir frá Nýja-Sjálandi taka m.a. þátt í aðgerðunum. 

Þau aðstoða yfirvöld á Fiji-eyjum. Greint hefur verið frá því að síðast hafi spurst til ferjunnar 18. janúar þegar hún sigldi frá Nonouti-eyjum áleiðis til Betio Tarawa á Kiribati. Siglingin átti að taka ferjuna, MV Butiraoi, sem er 17,5 metra löng, tvo daga, en leiðin nemur um 260 km. 

Yfirvöld á Nýja-Sjálandi segja að ferjan hafi gengist undir viðgerð skömmu áður en hún lagði úr höfn, en gert hafði verið við skrúfu ferjunnar. Talið er mögulegt að bilun hafi komið upp á leiðinni. Veðrið á þessu svæði á þessum árstíma er almennt ágætt. 

Nýsjálenski herinn sendi herflugvél á staðinn til að leita úr lofti, en vélin fylgdi áætlaðri siglingarleið ferjunnar. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert