Ekkert svar borist frá Kim

Það kom mörgum á óvart að Trump skyldi samþykkja að …
Það kom mörgum á óvart að Trump skyldi samþykkja að hitta Kim. AFP

Suður-Kórea hefur ekki enn fengið nein viðbrögð frá Pyongyang, höfuðborg Norður-Kóreu, vegna fyrirhugaðs fundar á milli Kim Jong-un, leiðtoga landsins, og Donalds Trump, forseta Bandaríkjanna. BBC greinir frá.

„Við höfum enn ekki fengið opinbert svar eða viðbrögð frá Norður-Kóreu varðandi fundinn,“ sagði talsmaður ríkisstjórnar Suður-Kóreu í morgun. „Ég hef á tilfinningunni að þeir gæti allrar varúðar og þurfi tíma til að mynda sér afstöðu,“ sagði hann jafnframt.

Það kom mörgum á óvart að Trump samþykkti síðastliðinn föstudag boð frá Norður-Kóreu um að leiðtogarnir myndu hittast á fundi. Embættismenn Suður-Kóreu segja að Kim sé tilbúinn að gefa kjarnorkuvopnatilraunir sínar upp á bátinn. Nánari upplýsingar um hvað fyrirhugað er að ræða á fundinum hafa þó ekki verið gefnar upp. Þá er enn ekki til staðar staðfest samkomulag þeirra á milli að af fundinum verði og hvar hann verði þá haldinn.

Sérfræðingar hafa ákveðnar efasemdir um hverju er hægt að áorka á slíkum fundi, ef tekið er mið af flækjustigi málefnanna sem gætu komið til tals.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert