Hælisleitandi í lífstíðarfangelsi

Hussein Khavari leiddur út úr réttarsalnum í dag.
Hussein Khavari leiddur út úr réttarsalnum í dag. AFP

Hælisleitandi hefur verið dæmdur í lífstíðarfangelsi fyrir að hafa nauðgað og myrt konu í Þýskalandi árið 2016.

Hussein Khavari, sem sagðist hafa verið frá Afganistan, viðurkenndi að hafa ráðist á nemandann Mariu Ladenburger, 19 ára, í október 2016 í borginni Freiburg, að því er BBC greindi frá, en málið hefur vakið mikla athygli í Þýskalandi.

Konunni var nauðgað og hún kyrkt en var á lífi þegar hún var skilin eftir við árbakka þar sem hún drukknaði, að sögn dómara.

Khavari var handtekinn nokkrum vikum síðar og tengdu lífsýni hann við glæpinn.

Khavari í réttarsalnum.
Khavari í réttarsalnum. AFP

Eftir að hann var handtekinn kom í ljós að hann hafði áður verið dæmdur í tíu ára fangelsi í Grikklandi árið 2014 fyrir morðtilraun eftir að hafa ýtt konu fram af bjargbrún.

Hann var látinn laus í október 2015 vegna þess að ekki var pláss fyrir hann í fangelsi.

Mánuði síðar flúði hann til Þýskalands í gegnum Austurríki án skilríkja og kvaðst vera 17 ára gamall.

Vegna þess að lífsýni hans var ekki skráð í Evrópu var engin alþjóðleg handtökuskipun gefin út á hendur honum. Velferðarsvið Freiburg útvegaði honum því pláss hjá fósturfjölskyldu.

Á meðan á réttarhöldunum yfir honum stóð vegna morðsins bentu sönnunargögn aftur á móti til þess að hann væri í raun frá Íran og gæti verið allt að 32 ára gamall.

Dómstóllinn samþykkti úrskurð sérfræðinga, þar á meðal röntgenmyndir af beinabyggingu hans og tanngreiningu og réttaði yfir honum sem fullorðnum manni.

AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert