Hálft tonn af fíkniefnum falið innan um Crocs-skó

Vörubifreiðin sem reyndist hafa rúmt hálft tonn af fíkniefnum að …
Vörubifreiðin sem reyndist hafa rúmt hálft tonn af fíkniefnum að geyma innan um 32 bretti af Crocs-skóm. Mynd/Norska tollgæslan

Það var ekki fyrr en í dag sem norska tollgæslan greindi frá máli sem kom upp á tollstöðinni við Svínasund, á landamærum Noregs og Svíþjóðar við bæinn Halden í Austur-Noregi, að morgni 28. júní í fyrra þegar hollenskur vörubifreiðarstjóri var stöðvaður þar til eftirlits. 

Við fyrstu sýn innihélt tengivagn bílsins 32 bretti af Crocs-skóm en þegar öll kurl voru komin til grafar og leit tollvarða lokið reyndust samtals 507 kílógrömm af ýmsum fíkniefnum leynast meðal fótabúnaðarins.

Fíkniefnahundurinn Ollie er gamall í hettunni og hefur marga fjöruna sopið enda var það hann sem reið baggamuninn í málinu þegar hann gaf til kynna að honum þætti sitthvað athugavert við Crocs-skóna. 

„Þú þurftir svo sem ekki að vera fíkniefnahundur til að átta þig í þessu máli, kannabislyktin lá yfir öllum leitarsalnum við Svínasund,“ sagði Øystein Børmer, tollstjóri Noregs, í samtali við norska ríkisútvarpið NRK þegar embætti hans greindi frá feng sínum og fjallað var um í kvöldfréttum NRK rétt í þessu: 430 kílóum af hassi, 23 af maríjúana, 40 af amfetamíni, 12 af heróíni og tveimur af kókaíni.

600.000 neysluskammtar

„Ef við reiknum þetta yfir í neysluskammta eru þeir 600.000 af ýmsum tegundum fíkniefna með markaðsverðmæti um 100 milljónir króna [tæplega 1,3 milljarðar íslenskra króna]. Það táknar að hér er um að ræða okkar langstærsta fíkniefnafund nokkru sinni þegar miðað er við söluverðmæti,“ sagði Børmer enn fremur.

Fíkniefnahundurinn Ollie hefur marga fjöruna sopið og var ekki lengi …
Fíkniefnahundurinn Ollie hefur marga fjöruna sopið og var ekki lengi að gera athugasemdir við vörubílinn eftir að tollverðir í Svínasundi ákváðu að leita í honum. Mynd/Norska tollgæslan

Hann sagði einnig að í Noregi þyrfti samstillt átak atvinnumanna í bransanum til að selja magn á borð við þetta, um væri að ræða vana menn með aðgang að geymslum og vel skipulögðu dreifikerfi.

Fertugur Hollendingur ók vörubílnum og var hann þegar handtekinn við komu til Noregs og hefur nú verið ákærður fyrir stórfellt fíkniefnamisferli. Að sögn verjanda Hollendingsins, Kristin Morch, neitar hann sök í málinu og kveðst ekki hafa haft hugmynd um að farmur hans innihéldi annað en Crocs-skó.

Børmer tollstjóri vill ekki tjá sig frekar um hvernig það kom til að þessi vörubíll var tekinn til hliðar til eftirlits en umferð um Svínasund er gríðarleg dag hvern og sú háttsemi Norðmanna þekkt að aka yfir til Svíþjóðar á bílum sem jafnvel eru með styrktan fjöðrunarbúnað svo síður sjáist hve drekkhlaðnir þeir eru áfengi og tóbaki sem er um helmingi ódýrara Svíþjóðarmegin. Hefur sá sem hér skrifar setið í löngum bílaröðum við tollinn í Svínasundi.

Tollstjóri segir ástæðu til að hafa áhyggjur af því hve óforskammaðir fíkniefnasmyglarar séu að verða. „Þeir smygla æ stærri skömmtum og taka æ meiri áhættu til að koma varningi sínum yfir landamærin. Annað áhyggjuefni snýr að fíkniefnum sem koma í smásendingum með bréf- og bögglapósti, þar er um lítið magn að ræða í hvert skipti en miklar áskoranir fyrir okkur að standa í því að finna þetta,“ segir Øystein Børmer tollstjóri að lokum.

Umfjöllun Aftenposten um málið

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert