Orban mótmælt

Tugir þúsunda komu saman í miðborg Búdapest til þess að mótmæla kosningasigri forsætisráðherra Ungverjalands, Viktor Orban um síðustu helgi. Talið er að hátt í eitthundrað þúsund hafi tekið þátt í mótmælagöngunni síðdegis í gær undir einkunnarorðunum: Við erum meirihlutinn.

„Við viljum búa við raunverulegt lýðræði,“ segir Viktor Gyetvai, tvítugur námsmaður sem er einn þeirra sem skipulögðu mótmælin. „Ef kröfum okkar er ekki mætt þá getum við ekki búið áfram í þessu landi. Þetta er síðasti möguleikinn fyrir okkur að gera eitthvað fyrir land okkar.“

Flestir mótmælenda eru ungt fólk sem krefst frelsis fjölmiðla og að atkvæði verði talin að nýju. Eða að gengið verði til kosninga að nýju þar sem stjórnarandstaðan tengi saman krafta sína. 

Þjóðernissinninn Orban hefur verið við völd í Ungverjalandi frá árinu 2010 en hann er hetja í augum Steve Bannon sem áður var helsti ráðgjafi forseta Bandaríkjanna, Donald Trump. Eitt helsta kosningaloforð Orban var að halda innflytjendum í skefjum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert