Afar ósáttur við brottvísunina

Roman Polanski.
Roman Polanski. AFP

Óskarsverðlaunahafinn, kvikmyndaleikstjórinn Roman Polanski, sakar bandarísku kvikmyndaakademíuna (US Academy of Motion Picture Arts and Sciences) um áreitni eftir að hún vísaði honum og bandaríska leikaranum Bill Cosby, úr akademíunni í gær.

Polanski, sem býr í Frakklandi, er eftirlýstur í Bandaríkjunum fyrir að hafa nauðgað ólögráða barni, 13 ára gamalli stúlku, árið 1977. Polanski, sem er 84 ára að aldri, hefur árum saman reynt að komast að samkomulagi um málið við bandarísk yfirvöld.

Tvímenningarnir voru sviptir aðild að akademíunni í gær fyrir að hafa brotið siðareglur hennar.

Lögmaður Polanski í Póllandi, Jan Olszewski, segir að brottvísunin beri með sér sálræna misnotkun á skjólstæðingi hans sem sé orðinn aldraður. Hann segir að Polanski telji að akademían fari gegn reglum sínum með brottvísunni og hann hafi beðið lögmanninn um að fara yfir þær reglur sem gilda um bandarísku kvikmyndaakademíuna. 

Að líkja Polanski og Cosby saman sé algjörlega út í hött að mati lögmannsins.

Cosby á yfir höfði sér allt að 30 ára fangelsi eftir að hafa verið fundinn sekur um kynferðislegt ofbeldi. Ofbeldið var framið árið 2004 og fólst meðal annars í því að hafa byrlað leikkonu ólyfjan og nauðgað.

Fórnarlamb Polanski,  Samantha Geimer, hefur beðið yfirvöld um að falla frá málinu gegn Polanski og segir hún að ákvörðun akademíunnar sé ljót og grimmileg aðgerð gagnvart leikstjóranum.

Olszewski segir að um eitt einstakt tilvik sé að ræða og að Polanski hafi verið fundinn sekur um og hann hafi axlað ábyrgð á gjörðum sínum. Fórnarlambið hafi fyrirgefið honum og í mörg ár hafi Polanski tilheyrt akademíunni. „Allir vissu, því ferlið var gegnsætt og opinbert, og þetta þetta hafi ekki vafist fyrir neinum,“ segir lögmaðurinn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert