Heimilishundurinn reyndist vera björn

Svartbjörn.
Svartbjörn. AFP

Kínversk fjölskylda áttaði sig á því á dögunum að heimilishundurinn væri alls ekki hundur, heldur svartbjörn. Þau fór að gruna að hundurinn væri ekki eins og hann ætti að vera vegna þess að hann hætti ekki að stækka.

Samkvæmt frétt Independent kom hin kínverska Su Yun heim með hvolp fyrir tveimur árum. Hún var hissa á því hve mikið hann át, en hann torgaði heilum kassa af ávöxtum og heilli fötu af núðlum á hverjum einasta degi.

Matarlystin var þó alls ekki að ástæðulausu, að því er kom í ljós seinna, því dýrið var að vaxa til þess að verða um 110 kílóa þungur björn.

Fór að sýna hæfileika til að ganga á tveimur fótum

Fjölskyldan áttaði sig á misskilningnum þegar dýrið hætti ekki að stækka og fór að sýna hæfileika til að ganga á tveimur fótum.

„Því meira sem hann stækkaði, því meira líktist hann birni,“ sagði Su Yun við kínverska fjölmiðla. Hún bætti því við að hún væri svolítið hrædd við birni.

Dýrið er nú í umsjá dýraverndarathvarfsins Yunnan Wildlife Rescue Centre eftir að fjölskyldan hafði samband og bað um aðstoð. Björninn er um einn metri að hæð, en starfsfólk athvarfsins var svo skelkað að ákveðið var að deyfa björninn áður en hann var fluttur af heimili fólksins.

Fjölskyldan segist hafa haldið að þau væru að kaupa tíbeskan mastiff-hund. Fjölskyldan er ekki sú fyrsta á svæðinu til að ruglast á birni og hundi sem gæludýri. Í mars greindu kínverskir miðlar frá því að maður hefði fundið það sem hann hélt að væri flækingshundur úti í skógi og tekið hann í fóstur. Síðar kom í ljós að um björn var að ræða.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert