Torra kjörinn með 66 atkvæðum gegn 65

Quim Torra er nýr forseti katalónsku héraðsstjórnarinnar.
Quim Torra er nýr forseti katalónsku héraðsstjórnarinnar. AFP

Katalónska þingið hefur kosið aðskilnaðarsinnann Quim Torra sem forseta katalónsku héraðsstjórnarinnar. Torra var einn í kjöri, en ákveðið var að kjósa um nýjan forseta á þinginu í gær. BBC greinir frá.

Kjör Torra gæti ekki hafa staðið tæpara, en hann hlaut 66 atkvæði gegn 65. Komið hafði verið í veg fyrir kosninguna í fimm mánuði og enn er ekki ljóst hvenær Spánn mun veita héraðinu sjálfsstjórn að nýju.

Forsætisráðherra Spánar, Mariano Rajoy, hefur samþykkt að hefja viðræður við Torra. Torra hefur lofað því að halda sjálfstæðisbaráttu Katalóníu áfram.

Carles Puigdemont, fyrrverandi forseti katalónsku héraðsstjórnarinnar, sem nú er í sjálfsskipaðri útlegð eftir að handtökuskipun á hendur honum var gefin út vegna ólöglegra kosninga um sjálfstæði Katalóníu, sendi frá sér myndskeið í síðustu viku þar sem hann tilnefndi Torra til forseta.

Carles Puigdemont.
Carles Puigdemont. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert