BASE-stökkvari lést í slysi í Noregi

Sjúkraþyrla átti í mestu erfiðleikum með að komast að slysstaðnum, …
Sjúkraþyrla átti í mestu erfiðleikum með að komast að slysstaðnum, 800 metra neðan við tind Katthammeren. Ljósmynd/Håvard Bævre Ellingsgård

Sænsk kona á þrítugsaldri, svokallaður BASE-stökkvari, lést í slysi á fjallinu Katthammeren í Mæri og Raumsdal í Noregi síðdegis í gær. Lögreglu á staðnum barst tilkynning um harmleikinn klukkan 16:45 að norskum tíma, 14:45 að íslenskum.

Hin látna lá 800 metra fyrir neðan topp Katthammeren, en fjallið er þekkt fyrir það aðdráttarafl sem það hefur á BASE-stökkvara hvaðanæva og eru ekki meira en tvö ár síðan BASE-stökkvari lét þar líf sitt síðast eins og mbl.is greindi frá í ágúst 2016.

„Ég get ekki sagt þér meira en að þetta var sænsk kona sem lést þarna,“ sagði Tove Anita Asp, aðgerðastjóri lögreglunnar í Mæri og Raumsdal, í samtali við mbl.is nú fyrir skömmu og bætti því við að ekki væri hægt að gefa nánari upplýsingar um hina látnu að svo komnu þar sem ekki væri búið að hafa samband við aðstandendur hennar. „Við vitum ekkert hvað það var sem fór úrskeiðis þarna, rannsókn á slysinu er rétt að hefjast,“ sagði Asp.

Eins og Dagbladet greinir frá voru margir viðbragðsaðilar ræstir út þegar tilkynning barst um slysið, lögregla, sjúkralið, sjúkraþyrla og Sea King-björgunarþyrla en mjög illfært var að slysstaðnum og tók margar klukkustundir að komast að hinni látnu þrátt fyrir að tvær þyrlur væru á vettvangi. Dagblaðið VG hefur auk þess greint frá slysinu og fleiri norskir fjölmiðlar, svo sem Aftenposten sem segir frá því að konan hafi verið í fylgd tveggja manna þegar hún stökk af Katthammeren.

Netmiðillinn Nettavisen gerði í ágúst 2016 úttekt um banaslys BASE-stökkvara í Evrópu en í þeim mánuði einum létust níu stökkvarar í slysum í álfunni sem er mesti fjöldi banaslysa innan þessarar umdeildu íþróttagreinar í einum mánuði nokkru sinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert