Dómsdagsliðar hengdir í Tókýó

Shoko Asahara í haldi lögreglu árið 1995. Hann var líflátinn …
Shoko Asahara í haldi lögreglu árið 1995. Hann var líflátinn í dag. AFP

Shoko Asahara, leiðtogi japönsku dómsdagsreglunnar, var hengdur í Tókýó í dag ásamt sex fylgismönnum sínum. Þeir voru dæmdir til dauða árið 2014 en dómsdagsreglan ber ábyrgð á hryðjuverkaárásinni í jarðlestarkerfi Tókýó-borgar í mars 1995 þar sem eiturgasið sarin var notað.

Í fimm þaulskipulögðum árásum losuðu árásarmennirnir eiturgasið á þremur línum lestarkerfisins á annatíma með þeim afleiðingum að tólf létust, 50 slösuðust alvarlega og yfir 1.000 manns þjáðust af tímabundnu sjónleysi.

Dómsdagsreglan Aum Shinrikyo trúir að dómsdagurinn, harmageddon, sé óumflýjanlegur og hann komi fram í heimsstyjöld þar sem Bandaríkin og Japan munu eigast við. Allir aðrir en félagar dómsdagsreglunnar séu dæmdir til eilífrar dvalar í helvíti og ekkert geti bjargað þeim nema að verða fórnarlamb árása reglunnar.

Eftir efnaárásina gerði lögregla mikla rassíu meðal félaga samtakanna. 200 voru handteknir, þeirra á meðal Asahara sjálfur. Þrettán félagar voru dæmdir til dauða og margir til viðbótar fengu lífstíðarfangelsisdóm.

Samtökin eru þó enn starfandi, undir nýju nafni, Aleph. Þau eru undir stífu eftirliti japanskra stjórnvalda og skilgreind sem hryðjuverkasamtök í Evrópusambandinu, Kanada, Rússlandi, Bandaríkjunum og víðar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert