Kosningastjórar blekktu Corbyn

Kosningastjórar innan Verkamannaflokksins blekktu Corbyn og aðstoðarmenn hans með því …
Kosningastjórar innan Verkamannaflokksins blekktu Corbyn og aðstoðarmenn hans með því að beina að þeim sérsniðnum Facebook-auglýsingum. AFP

Kosningastjórar innan breska Verkamannaflokksins eru sagðir hafa blekkt Jeremy Corbyn leiðtoga flokksins í aðdraganda þingkosninganna þar í landi í fyrra, með því að beina Facebook-auglýsingum frá flokknum sérstaklega að honum og hans nánustu aðstoðarmönnum, til þess að telja þeim trú um að verið væri að reka þá kosningabaráttu sem leiðtoginn óskaði.

Öðrum auglýsingum var síðan beint að almenningi. Þetta gerðu kosningastjórarnir þar sem þeir voru ósáttir við þau vinstrisinnuðu skilaboð sem Jeremy Corbyn vildi að flokkurinn sendi kjósendum fyrir kosningarnar.

Þess í stað var skilaboðunum einungis beint að Corbyn, aðstoðarmönnum hans og ákveðnum blaðamönnum, með sérsniðnum Facebook-auglýsingum.

Breska blaðið Sunday Times greinir frá þessu og segist hafa fengið þetta leynimakk staðfest hjá tveimur heimildarmönnum innan Verkamannaflokksins, en um það er fjallað í nýrri bók eftir Tom Baldwin, sem starfaði áður sem upplýsingafulltrúi Ed Milibands, fyrrverandi leiðtoga Verkamannaflokksins. Bókin ber heitið Ctrl Alt Delete: How Politics and the Media Crashed Our Democracy.

„Aðstoðarmenn Corbyns kröfðust þess stundum að miklu fé yrði varið í Facebook-auglýsingar vegna gæluverkefna sem starfsmenn í höfuðstöðvum Verkamannaflokksins töldu vera peningasóun,“ skrifar Baldwin í bók sinni og hefur eftir ónefndum starfsmanni flokksins að það hafi einungis kostað 5.000 pund að beina auglýsingum beint að Corbyn og hans fólki, í stað þess að ráðast í fokdýrar auglýsingaherferðir sem Corbyn og aðstoðarmenn hans vildu.

Þannig hafi Corbyn og hans fólki verið talin trú um að auglýsingarnar væru að berast kjósendum, en hið rétta var að þeim var einungis beint að afmörkuðum hópi.

Tom Baldwin leggur til í grein sem birtist í Sunday Times á morgun að pólitískar auglýsingar á samfélagsmiðlum verði með öllu bannaðar.

„Þegar leiðtogi stjórnmálaflokks getur verið blekktur með þessum hætti af sínum eigin starfsmönnum, eiga kjósendur sér ekki viðreisnar von,“ segir Baldwin í væntanlegri grein sinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert