Neyðast til að flýja í sjóinn

Eldarnir í bænum Rafina í gær.
Eldarnir í bænum Rafina í gær. AFP

„Það var reykur yfir hálfri Aþenu í gær. Reykurinn fór út um allt. Það eru núna fimmtíu og fjórir látnir,“ segir Yannis Lyberopoulus, ræðismaður Íslands í Aþenu. Heiftarlegir gróðureldar hafa geisað á Attica-svæðinu fyrir utan höfuðborgina á síðustu dögum.

„Eldurinn var ótrúlega fljótur að fara yfir þetta svæði og fólk gat ekki varist honum. Meira að segja fólk sem var við sjóinn lést. Það er ótrúlegt hvað þetta gerðist hratt og hvað var erfitt að slökkva eldana,“ segir Yannis.

Eldarnir hafa verið mannskæðastir við sjávarþorpið Mati sem er um fjörutíu kílómetra norðaustan við Aþenu. Þar hafa 26 látist og fjölmargir brugðið á það ráð að flýja í sjóinn. Tíu ferðamanna sem flúðu eldana í báti er meðal annars leitað. Alls eru yfir 170 manns slasaðir.

Íbúar í bænum Mati flýja í sjóinn.
Íbúar í bænum Mati flýja í sjóinn. AFP

Yannis segir viðbúnað stjórnvalda ekki hafa dugað til að gera út um eldinn vegna erfiðra aðstæðna. „Það eru aðallega þyrlur og flugvélar sem eru notaðar. Það var bara ekki nóg. Það var mjög erfitt að fljúga yfir í gær. Þetta er ótrúlegt ástand.“

Hundruð slökkviliðsmanna berjast við logana og yfirvöld hafa óskað eftir alþjóðlegri aðstoð. Enn sem komið er hafa Ítalía, Þýskaland, Pólland og Frakkland boðið aðstoð sína í formi flugvéla, farartækja og slökkviliðsmanna.

Margir þeirra sem létust í Mati voru í ökutækjum sínum …
Margir þeirra sem létust í Mati voru í ökutækjum sínum að reyna að flýja eldana. AFP

Samkvæmt Yannis hafa yfirvöld verið að ná sífellt betri tökum á eldunum og ástandið er öllu skárra en það var í gær, að minnsta kosti í Aþenu. „Það er búið að slökkva flesta eldana. Það er ekkert nýtt í dag á þessu svæði að minnsta kosti.“

Ein íslensk fjölskylda hefur leitað til Yannis eftir aðstoð. Þau eru austan megin í borginni og hafa séð yfir eldana. „Ég er í miklu sambandi við þau og þau hafa það allt í lagi. Það er engin hætta hjá þeim en það er hræðilegt að lenda í þessu,“ segir Yannis.

Sjálfur er Yannis hinum megin í borginni. „Ég er hinum megin við fjallið þar sem þetta var. Ég sé bara gulan himin og finn lyktina heima hjá mér.“

Bílar sitja fastir í umferðinni eftir að þjóðveginum var lokað …
Bílar sitja fastir í umferðinni eftir að þjóðveginum var lokað við Kineta, ekki langt frá Aþenu. AFP

Líkt og víðast hvar í Evrópu hefur hitinn í Grikklandi verið gríðarlegur í sumar og lítið sem ekkert hefur rignt. Í gær var svo talsverður vindur sem olli hraðri útbreiðslu eldsins og gerði slökkviliðsmönnum jafnframt erfitt fyrir.

Eldarnir eru með þeim verstu og mannskæðustu á öldinni eftir því sem fram kemur á AFP-fréttaveitunni. Í Portúgal létust 64 árið 2017 í mannskæðustu gróðureldum í portúgalskri sögu og tveimur árum áður létust 34 manns og þúsundir skepna í Suðaustur-Síberíu í eldum sem náðu allt til Mongólíu. Mannskæðustu eldar aldarinnar í Evrópu voru þó í Grikklandi árið 2007 þegar 77 létust á svæðum norðaustan við Aþenu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert