Þúsundir flýja gróðurelda í Kaliforníu

Carr-eldarnir loga í skógi í nágrenni Whiskeytown í Kaliforníu.
Carr-eldarnir loga í skógi í nágrenni Whiskeytown í Kaliforníu. AFP

Tugir þúsunda hafa neyðst til að flýja heimili sín í norðurhluta Kaliforníu vegna gróðurelda sem þegar hafa orðið tveimur slökkviliðsmönnum að bana.

Hvassir vindar í Shasta-sýslu þeyta eldinum upp í eins konar „hvirfilbyli elds“ sem rífa tré upp með rótum og velta bílum um koll að því er BBC hefur eftir slökkviliðsmönnum.

Eldarnir sem hafa fengið nafnið Carr-eldarnir hafa eyðilagt 500 byggingar hið minnsta og eru þúsundir heimila í hættu. Slökkviliðsmenn hafa einungis náð stjórn á um 5% eldanna til þessa. 48.000 ekrur lands, sem er stærra að ummáli en San Francisco, hafa brunnið frá því eldarnir kviknuðu á mánudag.

„Við sjáum eldinn snúast – bókstaflega eitthvað sem hægt er að lýsa sem hvirfilbyli,“ segir Ken Pimlott hjá CalFire, deild sem hefur umsjón með gróðri og eldvörnum, við fréttamenn.

„Stormurinn þeytti eldinum áfram,“ sagði hann og kvað hann hafa „rifið tré upp með rótum, flutt ökutæki og hluta vega. Þetta eru öfgakenndar aðstæður og við verðum að bregðast við því með því að flytja fólk á brott.“

Slökkviliðsmenn hafa ekki náð tökum á nema um 5% eldanna.
Slökkviliðsmenn hafa ekki náð tökum á nema um 5% eldanna. AFP

Aldrei upplifað neitt jafnskelfilegt

Dagblaðið San Francisco Chronicle segir langömmu og tveggja barnabarna hennar vera saknað.

Um 37.000 manns hafa orðið að yfirgefa svæðið.

Einn íbúanna, Liz Williams, endaði á að flýja fótgangandi með börnum sínum tveimur eftir að þau sátu föst í umferðarteppu. „Ég hef aldrei upplifað neitt jafnskelfilegt á allri minni ævi,“ segir hún við AFP-fréttastofuna. „Ég vissi ekki hvort eldurinn myndi skyndilega þjóta fram úr runna og draga mig inn.“

Gróðureldar eru gott sem árlegur viðburður í Kaliforníu, en gróðureldatímabilið hefur ekki byrjað jafnilla í áratugi. 

Eldský á útmörkum Carr-eldanna í nágrenni Redding í Kaliforníu.
Eldský á útmörkum Carr-eldanna í nágrenni Redding í Kaliforníu. AFP

Óskað eftir neyðaraðstoð alríkisyfirvalda

Ríkisstjóri Kaliforníu, Jerry Brown, hefur óskað eftir neyðaraðstoð alríkisyfirvalda til að hindra yfirvofandi hörmungar.  

Einnig loga eldar austur af Los Angeles, svonefndir Cranston-eldar, og hafa þeir nú farið yfir um 12.300 ekrur lands og hafa slökkviliðsmenn náði valdi á um 16% þeirra. Þá hafa slökkviliðsmenn náð völdum á 295 eldanna sem logað hafa á 46.675 ekrum lands í nágrenni Yosemite-þjóðgarðsins. 

Gróðureldar hafa þegar brennt um 1,68 milljónir hektara lands í Bandaríkjunum það sem af er þessu ári og er það langt yfir meðaltali síðustu 10 ára.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert