Réttarhöld yfir Manafort að hefjast

Réttarhöldin yfir Paul Manafort hefjast í dag.
Réttarhöldin yfir Paul Manafort hefjast í dag. AFP

Réttarhöld yfir fyrrverandi kosningastjóra Donalds Trump Bandaríkjaforseta hefjast í dag. Réttarhöldin eru þau fyrstu sem rannsókn alríkislögreglunnar á afskiptum Rússa af forsetakosningunum vestanhafs hefur getið af sér. 

Kosningastjórinn fyrrverandi, Paul Manafort, hefur verið ákærður í átján liðum, m.a. fyrir skattsvik, og gæti átt yfir höfði sér allt að þrjátíu ára fangelsisdóm verði hann fundinn sekur.

Manafort, sem stýrði kosningabaráttu Trumps í þrjá mánuði árið 2016, hefur alfarið neitað sök.

Í frétt BBC kemur fram að þess sé vænst að kostnaðarsamur lífstíll Manafort passi engan veginn við skattaskýrslur hans. 

Tekið að sér umdeild verkefni

Áður en Manafort gekk til liðs við kosningateymi Trumps sumarið 2016 hafði hann komið að kosningabaráttum fyrir marga repúblikana, m.a. forsetaframboð Ronalds Reagan á árunum 1978-1980.

Hann tók oft að sér umdeild viðfangsefni m.a. að vera talsmaður Ferdinand Marcos, fyrrverandi forseta Filippseyja, sem var sakaður um pyntingar, mannrán og fjöldamorð á andstæðingum sínum.

Manafort tók við taumunum á kosningabaráttu Trumps í maí árið 2016 og var við stjórnvölinn er Trump var útnefndur frambjóðandi Repúblikanaflokksins um tveimur mánuðum síðar. 

Sakaður um skattsvik

Fljótlega fór að hitna undir Manafort og var hann sakaður um að hafa ekki gefið upp tugi milljóna dollara sem hann fékk greidda fyrir ráðgjafastörf fyrir forseta Úkraínu. Í ágúst hætti hann að vinna fyrir framboð Trumps.

Í réttarhöldunum sem hefjast í dag er talið að fleira verði dregið fram í dagsljósið um tengsl Manafort við Úkraínumenn hliðholla Rússum og rússneska embættismenn. Í dómskjölum segir að hann hafi fengið tugi milljóna dollara fyrir ráðgjafastörf sín í Úkraínu en hafi ekki gefið það upp og þannig falið peninga fyrir bandarískum yfirvöldum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert