Ræða ekki við þriðju konuna

Ashley Kavanaugh fylgdist með eiginmanni sínum bera vitni fyrir dómsmálanefnd …
Ashley Kavanaugh fylgdist með eiginmanni sínum bera vitni fyrir dómsmálanefnd öldungadeildar Bandaríkjaþings á fimmtudag. AFP

Bandaríska alríkislögreglan FBI mun ekki ræða við Julie Swetnick í tengslum við rannsóknina á Brett Kavanaugh, dóm­ara­efni Don­ald Trumps Banda­ríkja­for­seta. Swetnick er þriðja konan sem hefur sakað Kavanaugh um kynferðislegt áreitni.

Lögmaður Swetnick sendi frá sér yfirlýsingu í síðustu viku þar sem kom fram að hún hafi á níunda áratug síðustu aldar orðið vitni að hegðun af hálfu Kavanaugh í garð kvenna sem falið hefði í sér kyn­ferðis­lega áreitni.

Seg­ir Swetnick að Kavan­augh hafi verið mjög drukk­inn í partíum í miðskóla og hún hafi séð hann meðal ann­ars káfa á stúlk­um og grípa í þær með óviðeig­andi hætti án þeirra samþykk­is.

Einnig kemur fram í yfirlýsingu lögmannsins að Swetnick, sem hef­ur unnið lengi fyr­ir banda­rísku al­rík­is­stjórn­ina sam­kvæmt frétt AFP, hafi verið hópnauðgað í par­tíi lík­lega árið 1982 sem Kavan­augh sótti. Hún held­ur því ekki fram að hann hafi tekið þátt í nauðgun­inni en seg­ir að hann og vin­ir hans hafi gerst sek­ir um hliðstæða hegðun.

Trump sagði á Twitter seint í gærkvöldi að hann vildi að FBI myndi ræða við hvern þann sem starfsfólk þar teldi við hæfi. Fjölmiðlar vestanhafs höfðu áður greint frá því að Trump vildi takmarka rannsóknina við ákveðið fólk. Sagði hann það fjarstæðukennt.

Rannsókn FBI lýkur í síðasta lagi á föstudag

Þrjár konur hafa sakað Kavanaugh um kynferðisofbeldi. Christine Blasey Ford bar vitni fyrir dómsmálanefnd öldungadeildar Bandaríkjaþings þar sem hún greindi frá ofbeldi af hálfu Kavanaugh árið 1982, þegar hún var 15 ára og hann 17.

Alríkislögreglan hefur rætt við De­borah Ramirez, en hún var önn­ur kon­an sem steig fram og sakaði Kavanaugh um kynferðisofbeldi. Ramirez segir að Kavanaugh hafi berað sig fyrir framan hana í partíi og að hún hafi óvart snert lim hans.

Dóms­mála­nefnd öld­unga­deild­ar Banda­ríkjaþings samþykkti í gær að til­nefna Kavan­augh í embætti hæsta­rétt­ar­dóm­ara með því skil­yrði að al­rík­is­lög­regl­an myndi rann­saka að nýju ásak­an­ir um kyn­ferðis­brot á hend­ur Kavan­augh. Á rann­sókn­inni að ljúka eigi síðar en föstu­dag­inn 5. októ­ber.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert