Játar að hafa myrt 100 sjúklinga

Niels Hoegel á leið í réttarsal í dag ásamt lögmanni …
Niels Hoegel á leið í réttarsal í dag ásamt lögmanni sínum, Ulrike Baumann. AFP

Réttarhöld standa nú yfir fyrrverandi hjúkrunarfræðingnum Niels Hoegel í Þýskalandi, en hann hefur játað að hafa orðið yfir 100 sjúklingum sínum að bana. Hoegel hefur þegar setið í fangelsi í næstum áratug vegna morðtilrauna og morða á öðrum sjúklingum, en ný sönnunargögn leiddu í ljós stóraukið umfang glæpanna og var hann því dreginn fyrir dóm að nýju.

Hoegel var dæmdur í lífstíðarfangelsi árið 2015 fyrir að myrða sjúkling með banvænum lyfjaskammti og fyrir tilraun til morðs á fimm sjúklingum til viðbótar.

Eftir að hafa framið glæpi sína óáreittur árum saman á tveimur þýskum sjúkrahúsum var Hoegel gripinn glóðvolgur árið 2005 þegar hann sprautaði sjúkling á Delmenhorst-sjúkrahúsinu með lyfjaskammti sem ekki hafði verið skrifað upp á. Sjúklingurinn lifði af og var Hoegel dæmdur í sjö ára fangelsi fyrir morðtilraun árið 2008.

Við rannsókn málsins kom fljótlega í ljós að dánartíðni á sjúkrahúsunum í Oldenburg og Delmenhorst, þar sem Hoegel starfaði, var óvenjuhá á árunum 2000 til 2005 og eftir lífstíðardóminn árið 2015 trúði Hoegel sálfræðingi sínum fyrir því að hann hefði framið að minnsta kosti 30 morð til viðbótar.

Lík 130 sjúklinga Hoegel hafa síðan verið grafin upp og segja saksóknarar Hoegel hafa myrt að minnsta kosti 100 þeirra. Rannsókn stendur enn yfir og er talið að endanlegur fjöldi fórnarlamba geti nálgast 200, en ljóst þykir að umfang morðæðisins komi aldrei fyllilega í ljós þar sem lík margra sjúklinga Hoegel voru brennd.

Eins og áður segir hófust réttarhöld yfir manninum í dag og við þingfestingu málsins játaði Hoegel sekt sína í málinu. Engu að síður er gert ráð fyrir því að réttarhöld standi fram í maí á næsta ári, og mun hjúkrunarfræðingurinn fyrrverandi þurfa að sæta skýrslutökum fyrir augum tuga aðstandenda sjúklinga sinna.

Talið er að morð hafi aldrei verið ætlun Hoegel, en markmið hans var að koma sjúklingunum í lífshættulegt ástand svo hann gæti bjargað þeim og fengið lof fyrir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert