Sýknuð af ákæru um guðlast

Sýknudóminum mótmælt af harðlínumönnum í dag.
Sýknudóminum mótmælt af harðlínumönnum í dag. AFP

Hæstiréttur Pakistans sneri í morgun við dómi undirréttar yfir kristinni konu, Asia Bibi, sem sakfelld hafði verið fyrir guðlast. Bibi átti erfitt með að trúa niðurstöðunni þegar hún lá fyrir að því er segir í frétt AFP og spurði ítrekað hvort þetta gæti verið satt.

„Ég veit ekki hvað ég á að segja, ég er mjög hamingjusöm, ég trúi þessu ekki,“ er haft eftir Bibi í fréttinni. Guðlast er alvarlegt afbrot í Pakistan. Samkvæmt fréttinni geta jafnvel ósannaðar ásakanir um slíkt í garð íslam og Múhameðs spámanns leitt til ofbeldis og jafnvel dauða.

Til stóð að leysa Bibi tafarlaust úr haldi en ekki liggur fyrir hvort gerðar verði einhverjar ráðstafanir til þess að gæta öryggis hennar eftir að úr fangelsinu er komið. Fjöldi harðlínumanna hefur mótmælt dóminum síðan greint var frá honum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert