Lögmaður Bibi óttast um líf sitt

Harðlínumenn eru ævareiðir yfir úrskurði hæstaréttar.
Harðlínumenn eru ævareiðir yfir úrskurði hæstaréttar. AFP

Lögmaður Asia Bibi, sem Hæstiréttur sýknaði af ákæru um guðlast í vikunni, hefur flúið Pakistan af ótta um líf sitt. Saif Mulook sagði við fréttastofu AFP að hann hefði þurft að yfirgefa land sitt svo hann gæti haldið áfram að vera verjandi Bibi.

Hæstiréttur sneri dómi undirréttar yfir Bibi, sem setið hafði á dauðadeild frá 2010, á miðvikudag en Bibi hefur hins vegar verið sett í farbann í tilraun til þess að binda enda á mótmæli harðlínumanna í landinu. Þeir hafa hins vegar litið á farbannið sem leyfi til þess að taka hana af lífi án dóms og laga.

Bibi tilheyrir minnihlutahópi Kristinna í Pakistan og var ákærð og dæmd fyrir guðlast árið 2010 eftir að hafa lent í rifrildi vegna vatnsskálar. Múslimskar samstarfskonur hennar neituðu að leyfa henni að snerta skál með vatni vegna trúar hennar og tilkynntu hana skömmu síðar til klerksins í bænum og sökuðu hana um guðlast gegn Múhameð spámanni.

Nokkur lönd hafa boðist til að veita Bibi hæli og sagði lögmaður hennar við BBC í vikunni að hún vildi flytja í vestræna menningu, en nokkrar tilraunir hafa þegar verið gerðar til þess að taka hana af lífi án dóms og laga.

Guðlast er gríðarlega viðkvæmt mál­efni í Pak­ist­an. All­ir sem eru sakaðir um að móðga íslam eiga á hættu að vera tekn­ir af lífi af æst­um harðlínu­mönn­um. Ekki er óal­gengt að af­tök­ur fari fram án dóms og laga í slík­um mál­um og oftar en ekki bein­ist hatrið gegn kristnu fólki.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert