Tígur felldur eftir að hafa orðið 13 að bana

Dýrið verður nú krufið.
Dýrið verður nú krufið. Ljósmynd/Þjóðgarðsvörður Indlands

Yfirvöld á Indlandi hafa fellt tígrisdýr sem er sagt hafa ráðist á og drepið 13 manns. Umfangsmikil leitaraðgerð hófst í kjölfarið sem leiddi til þess að tígrisdýrið var skotið.

Kventígurinn, sem var sex ára, og tveir níu mánaða gamlir tígrishvolpar hans drápu þrjá skammt frá bænum Pandharkawada í héraðinu Yavatmal í ágúst. Atvikið varð til þess að mikil skelfing greip um sig meðal íbúa sem eru um 5.000 talsins. 

Fram kemur á vef BBC, að dýrið hafi undanfarin tvö ár verið í felum í frumskógi í Maharashtra-ríki í vesturhluta Indlands. 

Í síðasta mánuði notuðu dýraeftirlitsmenn sérstakan ilm í þeim tilgangi að lokka dýrið úr skóginum. 

Þá höfðu aðgerðasinnar barist fyrir því að tígrisdýrið yrði verndað. Hæstiréttur landsins sagði aftur á móti að þeir ættu ekki að skipta sér af því ef þjóðgarðsverðir myndu neyðast til að skjóta dýrið til að fella það. 

Hópur manna sem var vopnaður deyfibyssu og skotvopnum kom sér fyrir í bifreið á vegi þar sem þorpsbúar höfðu séð dýrið. Eftirlitssveit fór inn á svæði skammt frá þorpinu Borati í gær eftir að hafa fengið upplýsingar um ferðir tígursins. 

Hópurinn skaut á dýrið úr deyfibyssu en þá tók tígurinn á rás og stefndi á hópinn. Þá var dýrið fellt með alvöruskoti af um 10 metra færi. 

Fram kemur á vef BBC að dýrið verði nú krufið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert