Ríkisstjórnarsamstarf í uppsiglingu?

Stefan Löfven verður jafnvel áfram forsætisráðherra Svíþjóðar.
Stefan Löfven verður jafnvel áfram forsætisráðherra Svíþjóðar. AFP

Formaður sænska Miðflokksins, Annie Lööf, sagði í gær að flokkurinn væri reiðubúinn að styðja Stefan Löfven í embætti forsætisráðherra gegn því að jafnaðarmenn gefi eftir í nokkrum málum.

Lööf skilaði í síðustu viku umboðinu til að mynda ríkisstjórn en hefur nú ákveðið að styðja Löfven í að gegna áfram embætti forsætisráðherra. Stjórnarkreppa hefur ríkt í Svíþjóð frá því þingkosningar fóru fram í september.

Frétt sænska ríkissjónvarpsins

Löfven stýrir starfsstjórn, tímabundið úrræði, sem ekki hefur heimild til þess að taka mikilvægar ákvarðanir.

Greidd verða atkvæði um að setja Löfven í embætti forsætisráðherra miðvikudaginn 5. desember. Hann hefur því viku til að mynda starfshæfa ríkisstjórn, ræða við formenn flokka og afla stuðnings.

Talið er fullvíst að hann njóti stuðnings eigin flokks, Jafnaðarmannaflokksins, auk samstarfsflokkanna, Græningja og Vinstriflokksins, en það nægir ekki til þess að hafa meirihluta á þingi nema ef einn flokkur bætist við.

mbl.is

Bloggað um fréttina