May fundar með Merkel og Rutte

Theresa May forsætisráðherra Bretlands ætlar að funda með Angelu Merkel …
Theresa May forsætisráðherra Bretlands ætlar að funda með Angelu Merkel Þýskalandskanslara vegna útgöngusamningsins. AFP

Theresa May, forsætisráðherra Bretlands, mun funda með Angelu Merkel Þýskalandskanslara og Mark Rutte, forsætisráðherra Hollands, vegna ákvörðunar sinnar um að fresta atkvæðagreiðslu í breska þinginu um útgöngusamning Bretlands úr ESB.

BBC greinir frá þessu og segir May munu bæði funda með leiðtogum og embættismönnum ESB með það fyrir augum að reyna að bjarga Brexit-samkomulaginu.

May hefur sagt að Bretar þurfi „aukinnar fullvissu“ við varðandi áætlunina um landamæri Norður-Írlands, eigi útgöngusamningurinn að öðlast stuðning þingmanna.

Donald Tusk, forseti leiðtogaráðs Evrópusambandsins, ítrekaði í gær að ESB muni ekki semja á ný við Bretland en sagði leiðtoga ESB engu að síður vera reiðubúna að ræða hvernig auðvelda megi að fá samninginn samþykktan í Bretlandi.

May greindi frá því í gær í þinginu að at­kvæðagreiðslunni hefði verið frestað. „Samn­ingn­um yrði hafnað naum­lega. Því hef­ur at­kvæðagreiðslunni, sem áætluð er á morg­un, verið frestað,“ sagði May.

Hafa gagnrýnendur útgöngusamningsins m.a. mótmælt bráðabirgðatollafyrirkomulagi sem koma á í veg fyrir eftirlitsstöðvar á landamærum Írlands og Norður-Írlands. Segjast þeir óttast að fyrirkomulagið verði á endanum varanlegt.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert