Talinn versti stormur í 30 ár

Öldur vegna stormsins skella á brúarstólpa í Surat Thani í …
Öldur vegna stormsins skella á brúarstólpa í Surat Thani í dag. Ljósmynd/AFP

Talið er að hitabeltisstormurinn Pabuk, sem skall á austurströnd suðurhluta Taílands í dag, verði sá versti sem hefur skollið á landinu síðan 1989. 400 manns létu lífið í storminum Typhoon Gay 1989. The Guardian greinir frá þessu.

Regn, vindur og gríðarstórar öldur fylgja storminum og hafa skollið á strandbæjum og fjölsóttum dvalarstöðum ferðamanna. Búist er við flóðbylgjum og flóðum á svæðinu í nótt.

Tugir þúsunda hafa nú þegar yfirgefið svæðið.
Tugir þúsunda hafa nú þegar yfirgefið svæðið. Ljósmynd/AFP

Fyrr í dag keyrðu yfirvöld í Nakhon Si Thammat, fylki í suðurhluta Taílands, á trukkum í gegnum götur á floti og hvöttu fólk til að yfirgefa svæðið. „Þið sem eruð enn inni, vinsamlegast gefið frá ykkur hljóð og við munum hjálpa ykkur að komast út. Þið eruð í hættu,“ tilkynntu þau úr hátölurum.

Búist er við að Nakon Si Thammarat og Surat Thani, þar sem ferðamannaeyjurnar Koh Samui, Koh Tao og Koh Phangan eru, fari verst út úr storminum. Fyrirskipun hefur verið send út um að allir bátar eigi að vera dregnir upp á land hið snarasta og ekki notaðir næstu tvo daga. 

Tveir látnir og einn horfinn

Tveir hafa nú þegar látist í tengslum við storminn, áhafnarmaður á fiskibáti lést í sterkri vindhviðu og tilkynnt hefur verið um hvarf annars úr áhöfninni. Rússneskur maður drukknaði á Koh Samui á miðvikudaginn. 

„Þið getið ekki verið hér,“ sagði Dahloh Bin Samah, opinber embættismaður á svæðinu, í sjónvarpsviðtali. Það verður allt jafnað við jörðu. Árlega skemmast veitingastaðir á ströndinni á regntímabilinu en í þetta skiptið er hitabeltisstormur á leiðinni. Það verður ekkert eftir. Ekkert.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert